Kallar eftir breyttum starfsháttum hjá KSÍ

Ásgrímur Helgi Einarsson og Fred Saraiva á góðri stundu.
Ásgrímur Helgi Einarsson og Fred Saraiva á góðri stundu. Ljósmynd/Fram

Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, gagnrýndi aga- og úrskurðarnefnd KSÍ harðlega í pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni í kvöld. Pistilinn má lesa með því að smella hér.

Fred, leikmaður Fram, var úrskurðaður í tveggja leikja bann af aganefnd KSÍ á þriðjudaginn síðasta fyrir ofsafengna framkomu.

Marc McAusland, spilandi aðstoðarþjálfari Njarðvíkur, var svo úrskurðaður í tveggja leikja bann í dag fyrir að slá mótherja sinn í leik Njarðvíkur og Kára hinn 13. september síðastliðinn en aganefndin studdist við myndband af atvikinu í úrskurði sínum.

„Ég held að starfsaðferðir aganefndarinnar hafi ekki breyst mikið á undanförnum tíu árum,“ sagði Ásgrímur í samtali við mbl.is í kvöld. „Þá er ég ekki vissum að starfsmenn aganefndar leiti eftir einhverjum fordæmum í sínum málum og maður hefur það á tilfinningunni eftir þetta sumar og það er horft á eitthvað blað þar sem talað er um ofsafengna framkomu og þá er þeim aðila skellt í tveggja leikja bann.

Svo er næsta mál þar sem talað um ofsafengna framkomu og þá er aftur hent í tveggja leikja bann. Það er eins og það sé ekki einu sinni skoðað hvað gerðist í þessum tveimur tilfellum og ef við horfum bara á þessi mál hjá annarsvegar Fred og svo Marc McAusland í Njarðvík þá er þetta bara tvennt ólíkt og ekki hægt að bera þetta saman.“

Fred Saraiva í leik með Frömurum í sumar.
Fred Saraiva í leik með Frömurum í sumar. mbl.is/Íris

Stuðst við öll réttargögn

Ásgrímur Helgi vill sjá breytingar á verklagi innan KSÍ og að stuðst sé við fleiri gögn þegar úrskurðað er í málum á vegum sambandsins.

„Ég held að það sé ekkert í lögunum sem banni t.d hvernig meðhöndlun skýrslu eftirlitsdómara er háttað innan KSÍ. Ég held að það sé einhver starfsregla dómaranefndar að sú skýrsla sé notuð sem einskonar kennsluefni fyrir dómarann sjálfan til þess að læra og þroskast.

Það sem mér finnst út í hött er að þegar að þú ert kominn inn undir regnhlífina KSÍ með ákveðið plagg sem getur varpað ljósi, hvort sem það er öðru ljósi eða sama geisla á eitthvað mál, að það sé ekki notað.

Að það sé bara ofan í skúffu og ekki notað til þess að leiðrétta einhverja vitleysu sem er í gangi með gögnum sem liggja alveg fyrir. Þetta ætti að geta hjálpað knattspyrnunni yfir höfuð myndi maður halda.

Aganefndin hefur ekki aðgang að þessum gögnum frá eftirlitsdómaranum og það eru einhverjar starfsreglur innan KSÍ. Það er eitt af því sem ég kalla eftir, að aga- og úrskurðanefndin hafi aðgang að þessum gögnum til þess að fá rétta niðurstöður í sín mál eins og í öllum öðrum réttarríkjum. Þar er stuðst við öll réttargögn til þess að fá sem réttasta niðurstöðu í málið.“

Marc McAusland í leik með Grindavík síðasta sumar.
Marc McAusland í leik með Grindavík síðasta sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Mikilvægt að skoða verklagið

Aganefnd KSÍ hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár en forráðamenn KSÍ hafa reglulega skýlt sér á bakvið það að aganefndin sé sjálfstætt starfandi nefnd, óháð KSÍ, þegar nefndin hefur sætt gagnrýni.

„Ég gef ekki mikið fyrir þessi svör KSÍ. Auðvitað á dómstóll að vera óháður einverri stjórn og öðru en hann er engu að síður skipaður af KSÍ. Þetta er ekki sjálfstæður dómstóll og KSÍ er ekkert annað en félögin í landinu. Það hlýtur að vera verk aganefndarinnar, eins og allra annarra innan knattpyrnuhreyfingarinnar, að skoða eigið verklag öðru hverju.

Menn verða aðeins að þora segja að hér sé eitthvað að og sérstaklega ef það gerist reglulega að aganefnd KSÍ sætir gagnrýni. KSÍ þarf þess vegna að horfa inn á við, líta í eigin barm og spyrja sig að því hvort það sé eitthvað sem hægt er að gera betur og hvort aðferðirnar og regluverkið sé ekki orðið barns síns tíma,“ bætti Ásgrímur við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert