Vísar ummælum Rúnars til aganefndar KSÍ

Úr leik KR og Fylkis í Vesturbænum á sunnudaginn síðasta.
Úr leik KR og Fylkis í Vesturbænum á sunnudaginn síðasta. mbl.is/Íris

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur vísað ummælum sem Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, lét falla eftir leik KR og Fylkis í 18. umferð úrvalsdeildar karla á Meistaravöllum í Vesturbæ til aga- og úrskurðarnefndar sambandsins en þetta staðfesti Klara Bjartmarz, framkvæmdastýra KSÍ, í samtali við RÚV.

Framkvæmdastjóri sambandsins getur vísað atvikum sem geta skaðað ímynd knattspyrnunnar til aga- og úrskurðarnefndarinnar og ákvað Klara að nýta sér þessa reglugerð aganefndarinnar.

Rúnar sakaði Ólaf Inga Skúlason, leikmann Fylkis og aðstoðarþjálfara liðsins, um svindl og svínarí eftir leik liðanna á sunnudaginn síðasta eftir að Ólafur Ingi og Beitir Ólafsson, markvörður KR, áttust við í vítateig KR-inga með þeim afleiðingum að Beitir fékk rautt spjald og Fylkismenn fengu vítaspyrnu.

Fylkismenn voru afar ósáttir með ummæli Rúnars og sendi frá sér harðorða yfirlýsingu vegna málsins en hún birtist fyrr í dag og má lesa með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert