Sterkari á öllum sviðum knattspyrnunnar

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu bíður áfram eftir sínum fyrsta sigri í Þjóðadeild UEFA en liðið tapaði 3:0-fyrir Danmörku í keppninni á Laugardalsvelli í kvöld.

Rúnar Már Sigurjónsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiks eftir hornspyrnu Christians Eriksens.

Eriksen spyrnti boltanum inn í teiginn og Simon Kjær stökk hæst allra og átti skalla að marki sem Hannes Þór Halldórsson sló út í teiginn.

Boltinn fór í Rúnar Má og þaðan í stöngina og inn og Danir leiddu því með einu marki í hálfleik, 1:0.

Hannes Þór Halldórsson nær ekki til boltans eftir þrumufleyg Roberts …
Hannes Þór Halldórsson nær ekki til boltans eftir þrumufleyg Roberts Skov. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danir tvöfölduðu forystu sína strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Hörður Björgvin Magnússon tók langt innkast á vallarhelmingi danska liðsins.

Boltinn barst til Rúnars Más sem átti þrumuskot í varnarmenn Dana. Þaðan fór hann á Christian Eriksen sem var allt í einu sloppinn einn í gegn.

Eriksen rakti knöttinn upp allan völlinn og lagði hann svo snyrtilega fram hjá Hannesi  í íslenska markinu og staðan orðin 2:0.

Danir fagna þriðja marki sínu í kvöld.
Danir fagna þriðja marki sínu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Robert Skov bætti við þriðja marki danska liðsins á 61. mínútu þegar hann þrumaði boltanum með hægri fæti í slána og inn af vítateigslínunni.

Íslenska liðið er áfram í neðsta sæti 2. riðils án stiga eftir fyrstu þrjá leiki sína en Danir eru með 4 stig í þriðja sætinu.

Robert Skov skorar þriðja mark Dana með þrumuskoti sem Hannes …
Robert Skov skorar þriðja mark Dana með þrumuskoti sem Hannes Þór Halldórsson náði ekki til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Galið mark að fá á sig

Fyrri hálfleikurinn hjá íslenska liðinu var ágætlega spilaður og Danir sköpuðu sér engin opin marktækifæri þótt þeir hafi vissulega fengið níu hornspyrnur.

Það mætti því alveg segja sem svo að Ísland hafi verið með ágætis stjórn á leiknum því Alfreð Finnbogason fékk besta færi hálfleiksins á 12. mínútu eftir misheppnaða sendingu til baka en honum tókst ekki að koma boltanum fram hjá Kasper Schmeichel í marki Dana.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks skoruðu Danir mark eftir hornspyrnu en það má setja spurningarmerki við það hvort markið hefði átt að standa þar sem boltinn virtist aldrei fara allur inn.

Fyrsta mark Dana skrifast hins vegar á Hannes Þór Halldórsson sem átti einfaldlega að gera miklu betur í aðdraganda marksins og grípa boltann þegar Simon Kjær skallaði í átt að marki.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyðimerkurgangan heldur áfram

Ef íslenska liðið endaði fyrri hálfleikinn illa þá byrjuðu þeir þann seinni ennþá verr. Langt innkast og mark í andlitið eftir algjört samskiptaleysi. Galið mark að fá á sig og eftir að Danir komust í 2:0 var leikurinn svo gott sem búinn.

Danir voru einfaldlega sterkari á öllum sviðum knattspyrnunnar í kvöld og íslenska liðið var í eltingaleik allan tímann.

Þá voru of margir leikmenn liðsins sem áttu ekki sinn besta dag og eyðimerkurganga Íslands í Þjóðadeildinni heldur áfram en liðið bíður áfram eftir sínum fyrsta sigri í keppninni.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 0:3 Danmörk opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina