Nauðsynlegir dagar fyrir leikmennina

Jón Þór Hauksson
Jón Þór Hauksson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefur gengið hrikalega vel og allt gengið að óskum," sagði Jón Þór Hauksson þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta við samfélagsmiðla KSÍ.

Er Jón í Svíþjóð ásamt liði sínu að undirbúa sig fyrir leikinn mikilvæga gegn Svíum í undankeppni EM næstkomandi þriðjudag. 

„Við æfum við frábærar aðstæður í frábæru veðri og það hefur allt gengið mjög vel,“ sagði Jón og bætir við að það hafi verið mikilvægt fyrir liðið að mæta fyrr til Svíþjóðar, þar sem liðið hefði ekki mátt æfa eins og venjulega heima á Íslandi vegna sóttvarnaraðgerða yfirvalda. 

„Þetta eru nauðsynlegir dagar fyrir leikmennina sem spila heima. Að komast í fótbolta og komast í spil er gott og við höfum nýtt tímann vel. Á móti kemur höfum við líka þurft að passa upp á álagið hjá þeim. Sem betur fer eru við með mjög gott sjúkrateymi sem passar upp á þær á milli æfinga,“ sagði Jón Þór.

mbl.is