Mál KR gegn KSÍ til Alþjóða íþróttadómstólsins?

Kvennalið KR mátti sætta sig við fall úr efstu deild …
Kvennalið KR mátti sætta sig við fall úr efstu deild eftir skrautlegt tímabil sem litaðist mjög af kórónuveirunni hjá liðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við erum búnir að tæma allar leiðir á Íslandi og eina leiðin er því að leita til alþjóða íþróttadómstólsins,“ sagði Páll Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar KR í viðtali í hlaðvarpsþættinum Mín Skoðun á SportFM.

Eins og fram hefur komið var KR í málarekstri hjá dómstólum KSÍ eftir að Íslandsmótinu í knattspyrnu var aflýst.

„Við erum búnir að tæma allar leiðir á Íslandi og eina leiðin er því að leita til alþjóða íþróttadómstólsins. Mér finnst mjög líklegt að við gerum það en ekki liggur endanleg ákvörðun stjórnar. Ég hef hins vegar rætt við einstaka stjórnarmenn og tel vera meiri líkur en minni að við látum reyna á þetta. Við höfum þó ekki endalausan tíma til að bregðast við og þurfum að gera það innan þriggja vikna frá því að dómur fellur,“ sagði Páll Kristjánsson en tók það fram að hann beri ávallt virðingu fyrir niðurstöðu dómstóla. En þeirra réttur sé að leita út með málið til að fá endanlega niðurstöðu. 

Þáttastjórnandinn Valtýr Björn Valtýsson spurði formann knattspyrnudeildar KR einnig út í skeytasendingar á milli Fram og KSÍ í gær en taka má fram að þáttastjórnandinn er varamaður í stjórn knattspyrnudeildar Fram. 

„Mér fannst margt til í þessu hjá Frömurunum. Það þarf að gera einhverjar breytingar á þessu dómstólakerfi. Það er alveg rétt sem þeir segja í sinni yfirlýsingu að það er eitthvað að þegar menn geta ekki fengið efnislega niðurstöðu í ágreiningi félaga við stjórn. Eins og ég hef sagt áður þá finnst mér ekki eðlileg afstaða stjórnar að fara fram á frávísun hjá áfrýjunardómstóli,“ sagði Páll og sagði að sér þætti niðurstaðan og meðferðin í máli Fram vera „stórfurðulega.

Páll sagðist ekki eiga von á öðru en að umhverfi dómstólanna verði til umfjöllunar á næsta ársþingi KSÍ í vetur. 

„Ég held að það sé nauðsynlegt að endurskoða þetta dómstólaumhverfi sem Knattspyrnusambandið býður upp á. Það er ljóst að það þarf að eiga sér stað einhver umræða um það á þessu þingi og reikna með að Knattspyrnusambandið muni eiga frumkvæði að slíkri endurskoðun. Þeir þurfa að geta tekið á alvöru málum líka og þessi afgreiðsla er búin að vera algerlega fráleit, burtséð frá efnislegri niðurstöðu. Þessi hringlandaháttur í kringum þetta og kröfur sambandsins um frávísun. Auðvitað þarf að fjalla efnislega um mál og fá skjóta afgreiðslu. Þessi mál hafa farið fram og til baka í á þriðja mánuð líklega frá því ákvörðun KSÍ lá fyrir. Þetta er ekki nógu gott og það þarf að bæta úr þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert