Sú eftirsóttasta á leið til Þýskalands

Sveindís Jane Jónsdóttir er að ganga til liðs við Þýskalandsmeistara …
Sveindís Jane Jónsdóttir er að ganga til liðs við Þýskalandsmeistara Wolfsburg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveindís Jane Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Keflavíkur, mun að öllum líkindum ganga til liðs við Þýskalandsmeistara Wolfsburg á næstu dögum samkvæmt heimildum mbl.is.

Sveindís, sem er einungis 19 ára gömul, var á láni hjá Breiðabliki á síðustu leiktíð þar sem hún varð Íslandsmeistari með liðinu. Hún skoraði 14 mörk í fimmtán leikjum með liðinu í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, síðasta sumar.

Sóknarkonan var efst í einkunnagjöf Morgunblaðsins undanfarin tvö tímabil en hún fékk 21M í fimmtán leikjum síðasta sumar og 19M í átján leikjum með Keflavík sumarið 2019.

Alls á hún að baki 32 leiki í efstu deild með Keflavík og Breiðabliki en hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Keflavík árið 2015, þá nýorðin fjórtán ára gömul.

Sveindís lék sinn fyrsta A-landsleiki á árinu í undankeppni EM gegn Lettlandi á Laugardalsvelli 17. september þar sem hún skoraði tvívegis í 9:0-sigri Íslands. Alls hefur hún leikið fimm A-landsleiki.

Sveindís verður annar Íslendingurinn sem leikur með Wolfsburg en Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands, lék með þýska liðinu frá 2016 til ársins 2020.

Wolfsburg hefur haft gríðarlega yfirburði í þýsku 1. deildinni undanfarin ár en liðið hefur unnið þýska meistaratitilinn fjögur ár í röð og bikarkeppnina sjö ár í röð.

Þá hefur liðið tvívegis komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á undanförnum þremur árum en í bæði skiptin tapað fyrir Lyon í úrslitum, 2018 í Úkraínu og 2020 á Spáni.

Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar Þýskalandsmeistaratitilinum með Wolfsburg ásamt liðsfélögum sínum …
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar Þýskalandsmeistaratitilinum með Wolfsburg ásamt liðsfélögum sínum í sumar. Ljósmynd/Wolfsburg
mbl.is