Hafnfirðingar lána Akureyring til Kópavogs

Andrea Mist Pálsdóttir á Kópavogsvelli.
Andrea Mist Pálsdóttir á Kópavogsvelli. Ljósmynd/Breiðablik

Andrea Mist Pálsdóttir knattspyrnukona frá Akureyri er komin í raðir Íslandsmeistara Breiðabliks, í láni frá FH.

Andrea kom til liðs við FH frá Þór/KA fyrir síðasta tímabil, eftir stutt stopp hjá Orobica í ítölsku A-deildinni um veturinn, og spilaði með Hafnarfjarðarliðinu í úrvalsdeildinni á síðasta ári. Hún lék líka hluta af tímabilinu 2018-19 með Vorderland í Austurríki.

Hún er 22 ára gömul og leikur sem tengiliður, og á að baki 108 úrvalsdeildarleiki, 97 þeirra fyrir Þór/KA, og hefur gert í þeim 18 mörk. Þá hefur Andrea leikið þrjá A-landsleiki fyrir Íslands hönd og þrjátíu leiki með yngri landsliðunum.

mbl.is