Reynslunni ríkari fyrir komandi verkefni

Róbert Orri Þorkelsson í baráttunni í Györ í dag.
Róbert Orri Þorkelsson í baráttunni í Györ í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Mér fannst við gera þetta ágætlega, við byrjuðum leikinn af krafti og héldum skipulaginu vel,“ sagði Róbert Orri Þorkelsson, leikmaður íslenska U21 árs landsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi á samfélagsmiðlinum Teams eftir 2:0-tap gegn Frakklandi í lokaleik liðsins í lokakeppni EM 2021 í Györ í Ungverjalandi í dag.

„Við fáum á okkur mark snemma en mér fannst við samt gera vel í að halda áfram allan tímann. Við gáfum Frökkum góðan leik en auðvitað hefði ég viljað gera betur í mörkunum sem við fáum á okkur.

Ég þarf að sjá þau aftur og ég veit ekki hvort það var ég sem gerði hann réttstæðan þarna í fyrra markinu. Það er það eina sem ég er ósáttur með en heilt yfir fannst mér þetta ganga vel hjá okkur í dag,“ sagði Róbert.

Íslenska liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum á mótinu og endaði með markatöluna 1:8.

„Við höfðum fulla trúa á okkur sjálfum farandi inn í lokakeppnina. Við ætluðum okkur sigur í þessum leikjum þótt það hafi ekki gengið eftir.

Það er mikilvægt að við lærum af því sem fór úrskeiðis og við erum reynslunni ríkari fyrir komandi verkefni,“ bætti Róbert við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert