Yfirlýsing frá níu félögum í 1. deild karla

Fram og Þór eru tvö þeirra liða sem skrifa undir …
Fram og Þór eru tvö þeirra liða sem skrifa undir yfirlýsinguna. mbl.is/Íris

Níu af tólf félögum í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, sendu í kvöld frá sér yfirlýsingu þar sem þau segjast ekki munu standa í vegi fyrir tillögu liða úrvalsdeildar karla um breytingar á keppnisfyrirkomulagi.

Í þeirri tillögu, sem starfshópur á vegum KSÍ lagði fyrir ársþing KSÍ í febrúar, er gert ráð fyrir að tólf lið leiki áfram í deildinni en eftir hefðbundna tvöfalda umferð verði deildinni skipt í tvo hluta. Efri sex liðin leiki einfalda umferð innbyrðis og sama geri liðin í neðri hlutanum, þannig að samtals verði leiknar 27 umferðir í deildinni í stað 22.

Um leið er skorað á KSí að setja strax í gang vinnu um skoðun mótafyrirkomulags í öðrum deildum, þannig að hægt sé að hefja undirbúning að tillögu um fyrirkomulagið í 1. deild karla.

Yfirlýsingin hljóðar þannig:

Í ljósi yfirlýsingar félaga í efstu deild um fyrirkomulag efstu deildar vilja neðanrituð lið úr Lengjudeildinni koma eftirfarandi á framfæri:

Talsverð umræða hefur átt sér stað um fyrirkomulag efstu deildar. Nú er svo komið að öll félög sem eiga sæti í Pepsi Max-deildinni á komandi tímabili hafa komið sér saman um að standa á bakvið tillögu starfshóps KSÍ, 12 liða deild sem skipt er upp eftir tvöfalda umferð. Þar sem öll lið í Pepsi Max-deildinni hafa sammælst um að styðja tillögu starfshópsins munum við, félög í Lengjudeildinni, ekki standa í vegi fyrir því að sú tillaga nái fram að ganga.

Á 75. ársþingi KSÍ var samþykkt stofnun starfshóps sem á að skoða mótafyrirkomulag í öðrum deildum en efstu deild. Við fögnum því að sú umræða fari af stað og skorum á KSÍ að setja þessa vinnu í gang strax svo móta megi tillögu um mótafyrirkomulag Lengjudeildarinnar sem lögð yrði fyrir næsta ársþing með það að markmiði að það tæki gildi strax tímabilið 2022.

Við höfum öll áhuga á því að gera Íslandsmótið í heild sinni sterkara, áhugaverðara og verðmætara og þurfum öll að standa vörð um fótboltann á Íslandi, frá neðstu deild til þeirrar efstu.

Undir yfirlýsinguna skrifa Afturelding, Fjölnir, Fram, Grótta, ÍBV, Kórdrengir, Vestri, Víkingur Ólafsvík og Þór Akureyri, eða níu af tólf liðum deildarinnar. Þau sem ekki eru með í yfirlýsingunni eru Grindavík, Þróttur Reykjavík og Selfoss.

mbl.is