Breiðablik og Valur ekki ósigrandi

Anna María Baldursdóttir sækir að Elínu Mettu Jensen á Hlíðarenda …
Anna María Baldursdóttir sækir að Elínu Mettu Jensen á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er virkilega svekkt ef ég á að vera alveg hreinskilin,“ sagði Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Val í 1. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Mér fannst við góðar í leiknum og áttum að fá eitthvað út úr honum. Mér fannst þær aldrei ná að opna okkur á neinn hátt og þær fengu fá færi. Við áttum alveg jafn hættuleg færi og þær og það er þess vegna virkilega svekkjandi að fá ekkert út úr þessu.

Við erum búnar að æfa vel í vetur og höfum fulla trúa á okkur. Við mætum fullar sjálfstraust inn í mótið og mér fannst við sýna það í kvöld að við við getum unnið fullt af leikjum í sumar,“ sagði Anna María.

Anna María í baráttunni, enn og aftur við Elínu Mettu, …
Anna María í baráttunni, enn og aftur við Elínu Mettu, en þær tókust hart á í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Sjaldan verið betri

Stjörnunni er spáð sjötta sæti deildarinnar í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni.

„Við viljum vera berjast í efri hluta deildarinnar og það er stærsta markmið sumarsins. Við erum að sjálfsögðu með minni markmið líka sem við ætlum að halda út af fyrir okkur.

Við vorum ekki langt frá Valsliðinu í þessum leik önnur lið eiga alveg að geta tekið stig af bæði Val og Breiðabliki í sumar.“

Fyrirliðinn hefur verið óheppinn með meiðsli undanfarin ár og lék einungis fjóra leiki Stjörnunnar í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

„Mér líður vel og ég hef sjaldan verið betri ef við horfum til baka síðustu ár. Ég er laus við meiðsli og reyni að velja aðeins hvaða æfingar ég tek.

Ég stefni á að spila alla leiki í sumar og það er ekkert að hrjá mig þessa stundina,“ bætti Anna María við í samtali við mbl.is.

mbl.is