Þú fagnar ekki í hálfleik

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var sáttur við fyrri hálfleikinn að mörgu leyti,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli eftir 3:2-sigur liðsins gegn Írlandi í vináttuleik í kvöld.

„Við byrjuðum seinni hálfleikinn illa en náðum samt sem áður að vinna okkur ágætlega inn í leikinn en síðasta korterið var mjög dapurt. Við fengum góða möguleika á að skapa okkur færi en það var of mikið um slakar og misheppnaðar sendingar því miður.

Það var ekki auðvelt að eiga við boltann í vindinum sem var á vellinum og það var erfitt að sparka boltanum út úr pressu oft á tíðum. Hann var klárlega ekki að hjálpa leikmönnunum en það er hægt að gefa sér það, miðað við það hvernig leikurinn spilaðist, að það hafi verið talsvert auðveldara að vera með vindinn í bakið,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagnar með liðsfélögunum eftir að hafa komið …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagnar með liðsfélögunum eftir að hafa komið Íslandi í 2:0. mbl.is/Eggert

Íslenska liðið lék ekki vel í síðari hálfleik og það var hálfpartinn eins og leikmönnum liðsins liði of vel í stöðunni 3:0 yfir.

„Ef það er tilfellið þá er þetta eitthvað sem við getum og munum klárlega læra af enda eru vináttuleikir til þess að læra af þeim.

Það þýðir ekki að slaka á og vonandi getum við nýtt okkur þetta í framtíðinni því það var vissulega pirrandi að fá á sig þetta mark þarna undir restina.

Þessi leikur hjálpar okkur vonandi til langs tíma litið og það er klárt mál að þú fagnar ekki í hálfleik, þú fagnar í leikslok,“ bætti Þorsteinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert