Verðum að fara að sýna að það býr mikið meira í liðinu

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari Skagamanna.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari Skagamanna. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Ég er mjög ósáttur með að tapa þessum leik,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA eftir 2:0 tap fyrir KA þegar liðin áttust við á Akranesi í 8. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. 

Skagamenn hafa reynt að byrja leiki sína í sumar með því að sækja fast að marki mótherja sinna og ná þannig undirtökunum en gestirnir frá Akureyri voru viðbúnir.  „Auðvitað voru KA-menn viðbúnir að við myndum sækja grimmt á þá í byrjun enda með vel mannað lið, klóka menn sem loka svæðum til að verja teiginn sinn og annað en mér fannst við samt skapa færi til að skora mörk í þessum leik en það heppnaðist ekki,“ sagði þjálfarinn.

Akurnesingar verma nú botnsæti deildarinnar eftir að Keflavík lyfti sér af botni deildarinnar með sigri á HK en þjálfarinn segir tímabært að hífa upp sokkana.   „Að mínu mati býr mikið meira í þessu liði en það er kominn tími til að við förum að sýna það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert