Skoraði sennilega besta markið á ferlinum

Valsmenn verjast aukaspyrnu Birnis Snæs Ingasonar í leiknum í Kórnum …
Valsmenn verjast aukaspyrnu Birnis Snæs Ingasonar í leiknum í Kórnum í kvöld. mbl.is/Sigurdur Unnar Ragnarsson

„Ég er svekktur, ég held að 3:0 lýsi kannski ekki alveg leiknum, en niðurstaðan eftir 90 mínútur er 3:0,” sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, við mbl.is eftir 3:0 tap gegn Val á heimavelli í kvöld.

„Að mörgu leyti spiluðum við vel og sérstaklega í fyrri hálfleik en þá vorum við með yfirhöndina í leiknum, svona alla vega í færum og möguleikum. En eina færið, ef færi má kalla, skot í átt að marki sem fer af varnarmanni og inn. Það samt breytir ekki ásýnd leiksins mikið, við bara reyndum að halda áfram. En svo skorar Birkir sennilega sitt besta mark á ferlinum hér í Kórnum.”

HK-ingar óðu í færum í fyrri hálfleik og voru mun betri aðilinn.

„Það vantaði svo sem ekki mikið upp á. Við áttum skot í stöng, tilraunir á markið. Skalla á markið sem Hannes varði mjög vel og gott skot á markið sem Hannes ver líka. Það eina sem vantaði var bara að koma boltanum fram hjá Hannesi og í netið,” sagði Brynjar Björn.

HK er í 11 sæti deildarinnar og hörð fallbarátta fram undan en liðið er 3 stigum frá öruggu sæti.

„Ef við höldum áfram met ég framhaldið bara ágætlega. Við erum langt frá því að vera eitthvað, hvað á ég að segja, við getum verið jákvæðir með spilamennskuna. Það er margt í dag sem er jákvætt og það hefur verið það oftar en ekki. Ef við höldum því áfram þá tínum við inn stig.”

Leikmannaglugginn fer að lokast. Hefur HK hug á því að styrkja liðið fyrir komandi átök?

„Við erum að skoða í kringum okkur, það er erfitt, það eru litlar sem engar hreyfingar hér heima og það er erfitt að ná í menn erlendis og ekkert hlaupið að því með stuttum fyrirvara,” sagði Brynjar Björn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert