Kórónuveirusmit í Breiðholtinu

Leiknismenn fagna marki í sumar.
Leiknismenn fagna marki í sumar. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Leikmannahópur Leiknis úr Reykjavík er kominn í sóttkví eftir að leikmaður liðsins greindist með kórónuveiruna.

Umræddur leikmaður tók ekki þátt í leik Leiknis og KA í Breiðholtinu í gærkvöldi en nýliðarnir eiga að mæta Fylki í Árbænum á þriðjudaginn eftir viku, 3. ágúst. Það er fótbolti.net sem segir frá þessum fréttum úr Breiðholtinu.

Fresta þurfti leikjum um helgina í fyrstu deild karla vegna kórónuveirusmita hjá Víkingum í Ólafsvík og Kórdrengjum og þá fer viðureign Fylkis og Vals í úrvalsdeild kvenna ekki fram á miðvikudaginn vegna smits í leikmannahópi Árbæjarliðsins.

mbl.is