Nú þarf að klára mótið með sæmd

Matthías Vilhjálmsson skoraði eitt af fimm mörkum FH í frábærum …
Matthías Vilhjálmsson skoraði eitt af fimm mörkum FH í frábærum sigri í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, var að vonum ánægður með 5:0-sigur á Leikni úr Reykjavík í 17. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í kvöld. FH hafði mistekist að vinna í síðustu tveimur leikjum sínum og átti á hættu á að sogast ofan í fallbaráttuna.

„Þetta var rosalega jákvætt fyrir okkur, Leiknismenn hafa sýnt það í sumar að þeir eru með gott lið,“ sagði Matthías í samtali við mbl.is en hann skoraði annað mark FH-inga í kvöld og lék fínan leik eins og margir samherjar hans.

„Fyrri hálfleikur var jafn en um leið og við náðum inn öðru markinu þá gengum við á lagið, loksins. Þetta var frábært fyrir Fimleikafélagið í dag,“ bætti hann við en Matthías telur FH-liðið eiga að geta gert betur en taflan gefur til kynna. Liðið er í 6. sæti með 22 stig.

„Ég held að það sé engin spurning að þetta er voðalega mikið andlegt. Okkur finnst mikið búa í þessu liði en við höfum einfaldlega ekki sýnt það nógu oft í sumar. Þetta var lykilleikur fyrir okkur og spurningin var: ætlum við að dragast ofan í fallbaráttuna eða klára þetta mót með sæmd?

Við skuldum stuðningsmönnum og okkur sjálfum það, að spila betur. Við eigum góða leiki inni á milli en nú þarf að klára mótið með sæmd og byggja til framtíðar.“

Matthías var að skora sitt fimmta deildarmark í sumar og í öðrum deildarleiknum í röð. „Ég ætti að vera búinn að skora meira, klárlega, en ég veit að þú sem sérfræðingur veist að ég hef verið að spila á miðjunni seinustu níu leiki í röð. En ef ég á að vera með markapressu á mér þar, þá er það allt í lagi, ég tek það á kassann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert