Fínt að ná yfirhöndinni svona með víti og mann útaf

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við ætluðum að byrja grimmir og ná yfirhöndinni og það var fínt að ná því svona, með víti og mann frá hinum útaf,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA eftir 5:0 sigur á Fylki þegar barist var á botni efstu deildar karla í fótbolta í dag.    

Einum færri skipti þjálfari Fylkis reynsluboltana Ragnar Sigurðsson og Helga Val Daníelsson inná og það gekk um tíma en Jóhannes Karl sá við því eftir hlé.  „Það gaf okkur ákveðið öryggi en við vorum samt klaufar að halda boltanum einum fleiri í fyrri hálfleik, sérstaklega eftir að Rúnar Páll þjálfari Fylkis gerði skiptingar og við reyndum of mikið að troða boltanum í gegnum miðjuna í stað þess að fara upp kantana, sem voru mikið opnari.    Við vorum líka of varkárir í hlaupunum aftur fyrir vörnina hjá Fylki en við ákváðum að vera grimmari og ákveðnari í pressunni í seinni hálfleik.  Við ræddum það í hálfleik að við gætum tekið yfir leikinn og keyrt yfir Fylki, strákarnir voru klárir í það og sýndu í seinni hálfleik hversu öflugir þeir voru.  Svo voru þeir sem komu inná frábærir.“

Skagamenn vermdu lengi botnsætið þrátt fyrir góða kafla í mörgum leikjum í sumar en þjálfarinn segir liðið á uppleið. „Við urðum fyrir áföllum í undirbúningstímabilinu, mikið um hnjask og meiðsli.  Svo kemur Alexander Davey mjög seint inn á síðustu stundu rétt fyrir mót.  Það tók því smá tíma að móta leik okkar eins og við vildum hafa hann en svo missum við líka Árna Frey fyrirliða okkar út vegna meiðsla rétt fyrir mót, fengum svo mikið að rauðum spjöldum þegar okkur fannst hlutirnir ekki vera að falla með okkur og jafnvel ósanngjarnt en við vorum staðráðnir í að snúa þessu okkur í vil.  Við vorum því ekkert að fara gefast upp, það var aldrei inní myndinni og það sást í dag hvað það er mikið Skagahjarta í þessum strákum, þeir eru stórir karakterar og alls ekki hræddir við stöðuna.  Við fundum sjálfir að það var stígandi í þessu hjá okkur þó svo aðrir hafi ekki haft trú á því.  Við höldum áfram og það er næst gríðarlega mikilvægur leikur í deildinni og við ætlum að fara með sama hugafar og sama vilja í síðasta leikinn,“  bætti Jóhannes Karl við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert