Get ekkert gert til að breyta skoðun þjálfarans

Svava Rós Guðmundsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagna marki gegn …
Svava Rós Guðmundsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagna marki gegn Tékklandi á föstudagskvöld. mbl.is/Unnur Karen

Svava Rós Guðmundsdóttir, sóknarkona íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og franska félagsins Bordeaux, hefur verið úti í kuldanum hjá félagsliði sínu á tímabilinu og segir það vera vegna þess að þjálfari sinn standi fastur á þeirri skoðun sinni hann hafi ekki not fyrir hana.

Á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag sat Svava Rós fyrir svörum og var spurð hvort hún hefði ekki viljað spila meira með Bordeaux á tímabilinu.

„Jú auðvitað. Þetta er eiginlega búið að vera upp og niður síðan ég kom þangað. Ég kom og meiddist svo. Svo skiptum við um þjálfara og eftir það hef ég lítið sem ekkert verið að spila.

Stundum er það bara þannig að þjálfarinn fílar mann ekki. Ég hef talað við hann og það er nokkurn veginn ekkert sem ég get gert til þess að breyta hans skoðun, svoleiðis er það bara,“ sagði hún.

Spurð hvað þjálfarinn hafi sagt við hana sagði Svava Rós: „Hann vill ekkert rosalega mikið hafa mig þarna, við getum alveg sagt það. Það er bara eins og það er.

Hann er bara búinn að mynda sér sína skoðun á mér og það er eiginlega ekkert sem ég get gert sem er að fara að breyta henni.“

Hún sagði þjálfarann ekki hafa gefið sér neina ástæðu fyrir því að hann vilji ekki nota hana.

„Nei, engin ástæða. Hann kemur þarna inn og er bara þannig séð búinn að mynda sér skoðun áður en hann kemur. Við erum ekki búin að vera með hann í langan tíma, hann byrjaði um miðjan ágúst.“

Þarf Svava Rós þá ekki að finna sér nýtt lið í janúar? „Jú. Ég ætla bara að sjá til hvernig þetta verður núna í nóvember og desember en ég vil fá að spila þannig að ég verð bara að skoða hvaða möguleikar eru í boði.“

Alltaf gaman með stelpunum

Hún kom inn á sem varamaður í síðasta landsleik, frábærum 4:0 sigri gegn Tékklandi á föstudagskvöld, og skoraði þriðja markið. Gæti þjálfari Svövu Rósar skipt um skoðun á henni eftir að hafa séð að hún skoraði með landsliðinu?

„Hann sendi mér nú SMS en eins og ég segi þá held ég að það sé ekki mikið sem ég get gert sem er að fara að breyta hans skoðun. Svoleiðis er það bara en auðvitað vona ég að hann skipti um skoðun,“ sagði Svava Rós.

Vegna erfiðra aðstæðna í Bordeaux sagði hún það vitanlega gott að komast í betra andrúmsloft með íslenska landsliðinu.

„Já það er mjög fínt að koma hérna með stelpunum, það er alltaf svo gaman með þeim. Það gerir mikið fyrir mann að komast í nýtt andrúmsloft.“

mbl.is