Fyrsta skrefið til að sýna að ég sé framtíðarmaður

Alfons Sampsted í leik gegn Liechtenstein.
Alfons Sampsted í leik gegn Liechtenstein. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfons Sampsted, landsliðsmaður í fótbolta, varð norskur meistari annað árið í röð fyrir áramót með Bodö/Glimt. Fáir áttu von á að liðið yrði meistari og hvað þá tvö ár í röð.

„Tilfinningin var frábær. Það var ótrúlega gaman að geta klárað tvö ár í röð. Það var sterkt að gera þetta aftur eftir að hafa misst leikmenn. Þetta var öðruvísi áskorun í ár en heilt yfir virkilega sterk frammistaða hjá liðinu,“ sagði Alfons á blaðamannafundi í dag.

Alfons á eitt ár eftir af samningi sínum við norska félagið og er óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér. „Það er engin leynd yfir því að ég er í viðræðum við þá en engar ákvarðanir verið teknar. Það var áhersla að taka tímabilið með krafti en svo kem ég aftur út og þá kíkjum við betur á þetta. Ég ætla aðeins að leyfa mér að róa hausinn en tek ákvörðun fljótlega.“

Ísland mætir Suður-Kóreu á morgun í öðrum leik sínum í Tyrkland en liðið gerði 1:1-jafntefli við Úganda á þriðjudag. „Fyrst og fremst viljum við sýna að við höfum tekið skref fram á við. Við viljum sýna að við höfum tekið framförum og nýir leikmenn geta komið inn í liðið og staðið sig. Mín upplifun er að leikmenn eru að skilja kerfið og vita hvað þeir eiga að gera frá fyrstu mínútu,“ sagði Alfons um leikinn.

Hann lék ekki gegn Úganda en á von á að hann spili á morgun. „Maður hefur væntingar fyrir því að maður spili. Ég kem seinna í hópinn en flestir, daginn fyrir leik. Ég lenti í Covid veseni heima sem ég þurfti að klára. Nú horfi ég á leikinn á laugardaginn sem tækifæri til að vinna mér inn sætið í landsliðinu. Það er fyrsta skrefið til að sýna að ég er framtíðarmaður hérna,“ sagði Alfons.

Myndir  frá æfingu landsliðsins í Belek í dag:

mbl.is