Alltaf að læra eitthvað í þessu

Heimir Guðjónsson ræðir við Almarr Ormarsson í kvöld.
Heimir Guðjónsson ræðir við Almarr Ormarsson í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Heimir Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, var svekktur í leikslok í samtali við blaðamann mbl.is eftir 0:1 tap liðsins gegn Stjörnunni í Bestu deild karla í knattspyrnu. Sigurmark Stjörnunnar kom á lokamínútu leiksins.

„Við töpum boltanum illa þarna í lokin. Það fór ekki saman sending og hlaup. Það hefði verið skynsamlegra að setja þetta fram en við töpum boltanum og þeir kláruðu leikinn. Stundum er það bara þannig í fótbolta. Við vorum að spila ágætlega í þessum leik. Fyrri hálfleikurinn var upp og niður en við vorum mun betri í seinni hálfleik. Við fengum fín færi til að komast yfir en samt sem áður voru ekki með nægilega góðar ákvarðarnir á síðasta þriðjungi vallarins. Við þurftum auðvitað að breyta byrjunarliði okkar á síðustu stundu en bæði Arnór Smárason og Patrick Pedersen meiddust í upphitun.

Það að einhver meiðist í upphitun hefur bara einu sinni gerst hjá mér áður held ég en aldrei tveir leikmenn. Maður er alltaf að læra eitthvað í þessu.  Þetta hafði samt ekki áhrif á liðið. Þeir leikmenn sem komu inn stóðu sig vel. Bæði Haukur og Orri stóðu sig vel. Þeir voru auðvitað allir með á æfingu í gær. Það tók kannski smá tíma að komast inn í þetta í fyrri hálfleik en eins og ég sagði áðan þá vorum við fínir í seinni hálfleik,“ sagði Heimir Guðjónsson.


Hvað með meiðslin hjá Arnóri, Patrick og Aroni Jóhannssyni sem var ekki með í kvöld frekar en gegn ÍA í síðustu umferð?

„Ég held að þetta sé ekkert alvarlegt hjá Arnóri og Patrick. Ég vona að Aron verði með gegn Víkingum en sjúkraþjálfarinn er ekki alveg þar. Þetta var meira en ég hélt hjá honum en vonandi verður hann með í næsta leik. Það verður bara að koma í ljós,“ sagði Heimir að lokum við blaðamann mbl.is eftir leikinn í Garðabæ í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert