Sigurganga HK heldur áfram

Hugrún Helgadóttir úr Augnabliki og María Lena Ásgeirsdóttir úr HK …
Hugrún Helgadóttir úr Augnabliki og María Lena Ásgeirsdóttir úr HK í baráttu í Kórnum í kvöld. mbl.is/Eggert

HK hélt í kvöld áfram sigurgöngu sinni í 1. deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, með því að vinna Augnablik í grannaslag í Kórnum í Kópavogi, 1:0.

Sigurmarkið var sjálfsmark strax á áttundu mínútu leiksins, þegar María Lena Ásgeirsdóttir átti skot í varnarmann og inn.

HK hefur þar með unnið fjóra fyrstu leiki sína í deildinni og er með 12 stig á toppnum. FH er líka með fullt hús, níu stig, og er að spila gegn Fjölni.

Augnablik er með 3 stig og hefur tapað þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum en liðið er aðallega skipað 2. og 3. flokksstúlkum úr Breiðabliki.

mbl.is