Reynum að hlýða þjálfaranum

Selfyssingar fagna einu marka sinna í kvöld.
Selfyssingar fagna einu marka sinna í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var fínt í kvöld, við erum að stíga í rétta átt. Við náðum að spila betur út úr vörninni og erum að halda boltanum betur,“ sagði Sif Atladóttir, leikmaður Selfoss, við mbl.is eftir öruggan 3:1 sigur á KR í Bestu deildinni í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

„Um leið og við náðum að vera rólegar á boltanum og létum þær hlaupa þá höfðum við fulla stjórn á leiknum. Ég var að senda óþarfa sendingar út úr vörninni og þá náðu þær að koma til baka á okkur en um leið og við leystum það þá fannst mér þetta ekki vera neitt stress,“ sagði Sif en Selfoss komst í 2:0 í fyrri hálfleik með glæsilegum mörkum frá Miranda Nild og Brenna Lovera.

„Þetta voru góð mörk. Bjössi sagði í hálfleik að það gleddi þjálfarahjartað þegar við erum að æfa eitthvað og það skilar sér svo í leikjunum. Það er alveg hægt að segja að við séum búnar að vera að einbeita okkur að þessu. Við reynum að hlýða þjálfaranum og spila leikinn eins vel og við getum,“ sagði Sif brosandi.

KR kom til baka í seinni hálfleik og minnkaði muninn í 2:1 með marki Bergdísar Fanneyjar Einarsdóttir en Sif var ekki áhyggjufull í framhaldinu. „Þær skoruðu geðveikt mark, við vitum af fætinum hennar Fanneyjar. Hún kláraði þetta vel. Samt höfðum við stjórn á leiknum í framhaldinu. Þetta var vinnusigur og mér fannst við leysa stöðurnar vel í dag og það skóp þennan sigur,“ sagði Sif að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert