Vanur því að skora hér

Róbert Hauksson í baráttu við Ólaf Karl Finsen.
Róbert Hauksson í baráttu við Ólaf Karl Finsen. mbl.is/Hákon

„Það var ljúft að sjá hann í markinu, bara stórkostleg tilfinning,“ segir Róbert Hauksson, sóknarmaður Leiknis, en hann skoraði annað mark Leiknismanna í sannfærandi 3:0 útisigri þeirra á Stjörnunni í Bestu deild karla í kvöld. 

Róbert, sem var á meðal bestu manna vallarins í kvöld, segir að hann hafi ekki heyrt fyrr en eftir á um laglegan aðdraganda marksins, þar sem boltinn byrjaði hjá Viktori Frey Sigurðssyni, markverði Leiknis, en þaðan barst hann á vinstri vænginn, þar sem Mikkel Jakobsen gaf hann fyrir í fallegum boga inn í teig. Þar var Róbert réttur maður á réttum stað, en hann kom á ferðinni og setti boltann viðstöðulaust í markið. 

Róbert er ekki ókunnugur því að skora á Stjörnuvellinum, þar sem hann er uppalinn í Garðabænum. „Já, maður er svo sem vanur því að setja mörk hér, þau hafa þó nokkur farið inn hér,“ segir hann kíminn. „En það var mjög gaman að koma aftur hingað og heilsa þeim sem maður þekkir.“

Leiknisljónin voru kampakát í leikslok.
Leiknisljónin voru kampakát í leikslok. mbl.is/Hákon

Leiknisljónin, stuðningsmannaklúbbur Leiknis, léku á als oddi í leiknum. Róbert segir að það hafi skipt öllu máli að heyra vel í stúkunni. „Við fundum það þegar þau komu inn í FH-leikinn af fullum krafti, og það er geggjað þegar þau fylgja manni og búa til stemningu. Þau í sjálfu sér pökkuðu Stjörnumönnum saman í stúkunni, því miður,“ segir Róbert. „Þetta er bara 12. maðurinn, hiklaust.“

Róbert segir að Leiknismenn séu nú komnir á skrið. „Ég sé enga ástæðu fyrir því að við ættum ekki að vinna næstu tvo leiki, og kveðja þessa fallbaráttu fyrir fullt og allt,“ segir Róbert að lokum, en Leiknismanna bíða heimaleikir á móti KA og ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert