Víkingur af öryggi í þriðju umferðina

Kristall Máni Ingason skýtur að marki The New Saints í …
Kristall Máni Ingason skýtur að marki The New Saints í fyrri leiknum en hann skoraði þá bæði mörk Víkings í 2:0 sigri. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík tryggðu sér í kvöld sæti í 3. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta með 0:0-jafntefli gegn velsku meisturunum í The New Saints á útivelli. Víkingur vann fyrri leikinn á heimavelli 2:0 og einvígið því samanlagt 2:0. 

Heimamenn byrjuðu ögn betur í kvöld og sköpuðu sér einhver tækifæri í upphafi leiks, án þess þó að ná að reyna á Ingvar Jónsson í marki Víkings. Eftir því sem leið á hálfleikinn komust Víkingar betur inn í leikinn og stýrði Fossvogsliðið ferðinni síðasta hálftíma fyrri hálfleiks.

Bandaríski miðvörðurinn Kyle McLagan fékk tvö fín færi eftir hornspyrnur frá Loga Tómassyni frá hægri en fyrst skallaði hann framhjá og síðan reyndi hann hjólhestaspyrnu en boltinn hafnaði í fanginu á Connor Roberts í marki TNS. Þá fékk Júlíus Magnússon einnig færi eftir hornspyrnu frá Loga en skallaði yfir.

Mörkin létu hinsvegar á sér standa og var staðan í leikhléi 0:0.

Bæði lið sköpuðu sér færi framan af í seinni hálfleik. Adrian Cieslewicz fékk það besta hjá heimamönnum þegar hann skallaði framhjá úr markteignum á 54. mínútu á meðan Karl Friðleifur Gunnarsson skaut hárfínt framhjá utan teigs á 62. mínútu í kjölfar þess að Kristall Máni Ingason fékk gott færi.

Ingvar þurfti einu sinni að verja vel í markinu þegar Declan Mcmanus átti fast skot úr teignum skömmu fyrir leikslok en markvörðurinn var eldsnöggur niður og gerði mjög vel.

Danski framherjinn Nikolaj Hansen kom með kraft af bekknum á lokakaflanum og komst í nokkur álitleg færi, en var þó ekki sérstaklega líklegur að skora. Niðurstaðan varð því markalaust jafntefli eftir fagmannlega frammistöðu. 

Víkingur mætir að öllum líkindum Lech Poznan frá Póllandi í næstu umferð en liðið vann 5:0-sigur á Batumi frá Georgíu í fyrri leik liðanna.

The New Saints 0:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Adrian Cieslewicz (The New Saints ) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert