Víkingar sannfærandi gegn pólsku meisturunum

Ari Sigurpálsson sækir að vinstri bakverðinum Pedro Rebocho á Víkingsvellinum …
Ari Sigurpálsson sækir að vinstri bakverðinum Pedro Rebocho á Víkingsvellinum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Íslandsmeistarar Víkings úr Reykjavík unnu frækinn 1:0-sigur á Póllandsmeisturunum í Lech Poznan í fyrri leik liðanna í 3. umferð Sambandsdeildarinnar á Víkingsvellinum í Fossvoginum í kvöld.

Það var ekki að sjá í upphafi leiks að Víkingar væru að spila við ógnarsterkt meistaralið Póllands enda voru heimamenn betri framan af og fengu ekki bara betri færi, þeir fengu eiginlega einu færi fyrri hálfleiks. Pabo Punyed átti góða tilraun sem Filip Bednarek varði á upphafsmínútunum en Ari Sigurpálsson var svo allt í öllu í upphafi leiks, átti marga góða spretti fram vinstri kantinn og ágætis marktilraun eftir um tíu mínútna leik er hann skaut rétt yfir markið. Þar á undan átti framherjinn Mikael Ishak fyrsta og eina skot gestanna í fyrri hálfleik er hann sneri boltann yfir markið.

Í raun gerðist lítið marktækt eftir fjörugar fyrstu tíu mínúturnar fyrr en á lokamínútu hálfleiksins þegar enginn annar en Ari sjálfur braut ísinn með glæsilegu marki. Gestirnir fengu hornspyrnu sem úr varð nokkur darraðardans inn í vítateig áður en Birnir Snær Ingason kom boltanum fram völlinn, á Ara á miðjunni. Sá rak knöttinn fram allan völlin, lék á Michal Skóras og sneri svo boltann laglega í hægra hornið fjær. Staðan 1:0 í hálfleik.

Ari þurfti svo að yfirgefa leikvöllinn vegna meiðsla snemma í síðari hálfleik en í hans stað kom Viktor Örlygur Andrason sem átti fínar rispur. Það voru hins vegar gestirnir sem hófu síðari hálfleikinn af meiri krafti, enda staðráðnir í að reyna kreista fram jöfnunarmark. Kristoffer Velde komst nálægt á 50. mínútu með þrumuskoti utan teigs en boltinn hafnaði í þverslánni. Víkingar héldu svo áfram að vera skipulagðir í sínum aðgerðum, vörðust vel og sóttu sömuleiðis ágætlega þegar færi gáfust.

Víkingar unnu því að lokum frekar sannfærandi 1:0-sigur gegn pólsku meisturunum og ef eitthvað geta Íslandsmeistararnir mögulega verið svekktir með að taka ekki stærri sigur til Póllands er liðin mætast öðru sinni í næstu viku.

Víkingur R. 1:0 Lech Poznan opna loka
90. mín. Víkingur R. fær hornspyrnu Smá atgangur inn í teig áður en Bednarek handsamar boltann og reynir að koma sínum mönnum í sókn.
mbl.is