Nökkvi sökkti Stjörnunni með þrennu og stoðsendingu

Óskar Örn Hauksson reynir skot að marki Akureyringa í kvöld.
Óskar Örn Hauksson reynir skot að marki Akureyringa í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði þrennu, þar af tvö mörk úr vítaspyrnum, og lagði auk þess upp mark til viðbótar þegar lið hans KA vann sterkan 4:2-sigur á Stjörnunni í Bestu deild karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld. Bæði mörk Stjörnunnar komu úr vítaspyrnum.

Ekkert vantaði upp á fjörið í fyrri hálfleik þar sem alls fimm mörk litu dagsins ljós.

Á áttundu mínútu fékk Stjarnan vítaspyrnu eftir að Kristijan Jajalo í marki KA felldi Emil Atlason innan vítateigs. Jóhann Árni Gunnarsson hafði sent hann einan í gegn og Emil tekið skotið en Jajalo felldi hann nánast í sömu andrá.

Jóhann Árni steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi með góðu skoti niður í bláhornið á níundu mínútu. Jajalo fór í rétt horn en átti ekki möguleika.

Tíu mínútum síðar jafnaði KA metin. KA spilaði sig þá laglega út úr pressu Stjörnumanna.

Þorri Mar Þórisson skipti þá um kant með langri sendingu og fann Hrannar Björn Steingrímsson hægra megin, hann komst framhjá Þórarni Inga Valdimarssyni sem braut á honum í leiðinni en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari gerði vel í að beita hagnaðarreglunni þar sem Hrannar Björn náði að renna boltanum fram völlinn á Svein Margeir Hauksson.

Sveinn Margeir renndi boltanum svo þvert fyrir markið á Nökkva Þey Þórisson sem var utarlega í vítateignum, tók góða snertingu sem kom honum í mun betri skotstöðu og lagði boltann svo snyrtilega í fjærhornið.

Á 35. mínútu var KA búið að snúa taflinu við. Nökkvi Þeyr renndi þá boltanum inn fyrir á Hallgrím Mar Steingrímsson, sem var mættur í fullkomið hlaup inn á vítateiginn og renndi boltanum með viðstöðulausu, hnitmiðuðu skoti niður í bláhornið fjær.

Fimm mínútum síðar náði Stjarnan að jafna metin eftir að hafa aftur fengið dæmda vítaspyrnu. Emil var þá á undan Dusan í boltann og felldi Serbinn hann innan vítateigs.

Jóhann Árni steig aftur á vítapunktinn og skoraði öðru sinni en í þetta sinnið stóð það tæpt. Hann setti boltann í sama horn og í fyrri vítaspyrnu sinni og líkt og í henni fór Jajalo í rétt horn en í þetta sinnið varði hann boltann í stöngina og inn.

Aðeins tveimur mínútum eftir jöfnunarmark heimamanna, á 42. mínútu, var KA búið að ná forystunni á ný. Þriðja vítaspyrnan í fyrri hálfleiknum var þá dæmd eftir að Haraldur Björnsson felldi Elfar Árna Aðalsteinsson innan vítateigs í kjölfar mistake Björns Bergs Bryde.

Nökkvi Þeyr steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi þar sem hann setti boltann í vinstra hornið á meðan Haraldur skutlaði sér í það hægra.

Staðan því 3:2, KA í vil, eftir hreint magnaðan fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur reyndist ekki nándar nærri jafn fjörugur en fjórða vítaspyrnan leit þó dagsins ljós.

Elfar Árni fékk hana eftir að hann smeygði sér fram fyrir Þórarin Inga rétt innan vítateigs sem varð til þess að sá síðarnefndi felldi sóknarmanninn.

Aftur steig Nökkvi Þeyr á vítapunktinn og aftur sendi hann Harald í vitlaust horn. Að þessu sinni skaut hann í hægra hornið á meðan Haraldur fór í það vinstra.

Þrennan þar með fullkomnuð og hans 16. mark í Bestu deildinni á tímabilinu. Er Nökkvi Þeyr langmarkahæstur í deildinni sem stendur þar sem Ísak Snær Þorvaldsson hjá Breiðabliki og Guðmundur Magnússon hjá Fram eru báðir með 12 mörk.

Fleiri urðu mörkin ekki og sterkur tveggja marka sigur KA niðurstaðan.

KA er því áfram í öðru sæti deildarinnar, nú þremur stigum á eftir toppliði Breiðabliks sem á þó leik til góða gegn Fram annað kvöld.

Stjarnan 2:4 KA opna loka
90. mín. Ísak Andri Sigurgeirsson (Stjarnan) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert