Við einbeitum okkur að því sem við getum stjórnað

Agla María Albertsdóttir sækir að vörn Aftureldingar í leiknum í …
Agla María Albertsdóttir sækir að vörn Aftureldingar í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var rosalega skrítinn leikur,“ sagði Natasha Moraa Anasi, fyrirliði Breiðabliks í leiknum, eftir 3:0  sigur Breiðabliks á Aftureldingu sem var spilaður á Kópavogsvelli í grenjandi rigningu.

„Það er erfitt í svona veðri að gera nákvæmlega það sem maður vill gera en mér fannst við vera þolinmóðar og svo kom þetta í lokin," sagði Natasha við mbl.is.

Markalaust var í hálfleik þrátt fyrir margar sóknir Blika og þær héldu mun meira í boltann eins og búast mátti við. Öll þrjú mörkin komu því í seinni hálfleik.

„Þegar við komum inn í seinni hálfleik ætluðum við að vera þolinmóðari og reyna að halda boltanum betur. Mér fannst við vera að drífa okkur of mikið og reyna að senda strax fram í staðin fyrir að byggja þetta upp í gegnum miðjuna en svo gerðum við það í seinni hálfleik og skoruðum í lokin.“

Nú eru tveir leikir eftir af tímabilinu og Blikar þurfa að treysta á það að Valur tapi báðum næstu leikjum sínum sem verður að teljast ólíklegt en annað sætið tryggir þeim þó sæti í Meistaradeildinni.

„Við ætlum bara að taka einn leik í einu. Við eigum tvo leiki eftir og núna ætlum við að einbeita okkur að næsta leik og því sem við getum stjórnað,“ sagði Natsaha.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert