Þetta veitir okkur hugarró

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var að vonum glaður eftir að liðið tryggði sér bikarmeistaratitilinn með 3:2-sigri á FH í framlengdum úrslitaleik í Mjólkurbikarnum í kvöld.

„Mér er fyrst og fremst létt. Þetta var ótrúlega erfiður leikur að mörgu leiti, mér fannst við vera sterkari aðilinn en við losnuðum einhvern veginn aldrei við FH. Það flaug um hausinn á mér þar sem maður hefur verið lengi í kringum fótbolta að þetta gæti verið einn af þessum dögum þar sem hitt liðið bara vinnur. Sem betur fer poppaði Nikolaj upp og tryggði okkur titilinn.

Varamenn Víkings komu inn af miklum krafti en sem dæmi skoraði Nikolaj Hansen tvö mörk sem tryggðu Víkingi sigurinn.

„Stundum heppnast skiptingarnar og stundum ekki, það fór hræðilega í síðasta leik gegn KR til dæmis. Við höfum saknað Niko, það er ekkert grín að markakóngur liðsins spili jafn lítið og hann hefur gert en hann hefur náð góðum æfingum undanfarnar vikur svo það var frábært að sjá hann skora þessi tvö mörk.“

Hófu vegferðina fyrir fjórum árum

Fyrra mark Hansen var á lokamínútu venjulegs leiktíma og virtist hann vera að tryggja sigurinn þá. FH hins vegar fór upp völlinn og jafnaði um mínútu síðar.

„Það var bara ógeðsleg tilfinning, eins og hnífur í bakið. Maður er einhvern veginn byrjaður að undirbúa sigurhátíðina og svo er það tekið frá þér. Sem betur fer náðum við að núllstilla okkur fyrir framlenginguna og það var frábært að fá þetta mark strax í byrjun. Þetta hefðu getað verið langar 30 mínútur.

Þessir strákar og þessi hópur er búinn að vera geggjaður fyrir mig og klúbbinn. Þeir eru sem betur fer ennþá hungraðir í að vinna titla.“

Titillinn er þriðji bikarmeistaratitill Víkings í röð og er þetta þriðja tímabilið af síðustu fjórum sem félagið vinnur bikar.

„Þetta er ótrúlegt. Við hófum þessa vegferð saman fyrir fjórum árum síðan og ég væri að ljúga því ef ég hefði haldið að þetta færi svona. Þetta er ótrúlegur árangur en það er ótrúlega erfitt að vinna titil í nútímafótbolta. Það eru svo mörg góð lið og þú verður alltaf að vera að berjast á öllum vígstöðum. Líkindin eru þannig að ef þú kemst nógu oft í úrslitaleiki áttu meiri möguleika en aðrir á að vinna.“

Þrátt fyrir að það sé kominn október eru enn 5 leikir eftir af tímabilinu.

„Þessi leikur veitir okkur hugarró, við erum komnir í Evrópu. Það hefði verið þungt eftir alla okkar baráttu í sumar að missa af þessum titli og vera svo í slagsmálum um að ná öðru sætinu til að komast í Evrópu. Þetta léttir á mönnum en við megum ekki gleyma því að það er kominn standard í klúbbinn, svo við verðum að mæta í úrslitakeppnina af fullum krafti.“

Stuðningsmenn Víkings fagna í kvöld.
Stuðningsmenn Víkings fagna í kvöld. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert