Mögnuð endurkoma gegn Ítalíu

Emelía Óskarsdóttir skoraði eitt mark og lagði upp annað í …
Emelía Óskarsdóttir skoraði eitt mark og lagði upp annað í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska stúlknalandsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum 17 ára og yngri gerði frækið 3:3-jafntefli við heimakonur í Ítalíu í fyrstu umferð riðils 4 í A-deild undankeppni EM 2023 í dag. Ítalía náði tveggja marka forystu í tvígang.

Giulia Dragoni kom Ítölum yfir á 33. mínútu og Emma Girotti tvöfaldaði svo forystuna skömmu fyrir leikhlé. Staðan því 2:0 í leikhléi.

Snemma í síðari hálfleik minnkaði Emelía Óskarsdóttir, leikmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Kristianstad, muninn fyrir Ísland með föstu skoti beint úr aukaspyrnu sem Erica Di Nallo í marki Ítalíu varði inn.

Á 70. mínútu skoraði Girotti annað mark sitt og þriðja mark Ítalíu eftir frábæran undirbúning Beatrice Calegari og staðan því orðin 3:1.

Átta mínútum fyrir leikslok minnkaði Katrín Rósa Egilsdóttir, leikmaður HK, hins vegar muninn með skoti af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Lilju Bjarkar Unnarsdóttur, leikmanns ÍA, frá hægri sem fór í gegnum pakkann.

Aðeins mínútu síðar, á 83. mínútu, jafnaði Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir, leikmaður Breiðabliks, metin með hnitmiðuðu skoti niður í hornið eftir magnaðan undirbúning Emelíu, sem fór afskaplega illa með varnarmenn Ítalíu.

Það sem eftir lifði leiks var Ísland sterkari aðilinn og fékk nokkur færi til viðbótar til þess að tryggja sér sigur en niðurstaðan að lokum 3:3-jafntefli eftir frábæra endurkomu.

Ísland er í ógnarsterkum riðli, sem allur er leikinn á Ítalíu, þar sem Sviss og Frakkland eru einnig á meðal þjóða. Þau mættust fyrr í dag og hafði Sviss betur, 2:1.

Næsti leikur íslenska liðsins er á föstudag gegn Sviss.

mbl.is
Loka