Nánast níu stiga leikur

Eyjamenn fagna marki í dag.
Eyjamenn fagna marki í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti FH í fyrstu umferð neðri helmings Bestu deildar karla í fótbolta í Vestmannaeyjum í dag. Hart var barist í kaldri vestanáttinni en heimamenn í ÍBV höfðu að endingu betur 2:1.

Mikið var undir í leiknum en ÍBV var fyrir leikinn með einu stigi meira en FH sem sat í fallsæti fyrir leikinn.

Sigurður Arnar Magnússon stóð vaktina í vörn heimamanna í dag með prýði. Hann var sammála blaðamanni um að þarna hafi Eyjamenn náð sér í einstaklega dýrmæt stig.

 „Tilfinningin er mjög góð. Þetta var nánast 9 stiga leikur því þetta var svo mikilvægur leikur. Þetta var samt bara einn leikur af fimm og við erum ekkert sloppnir frá þessu.

Næsti leikur er á sunnudaginn svo það er stutt stórra högga á milli,“ sagði Sigurður Arnar eftir leikinn.

Sigurður Arnar Magnússon í eldlínunni í sumar.
Sigurður Arnar Magnússon í eldlínunni í sumar. mbl.is/Hákon

Eyjamenn hafa spilað ágætlega í sumar en oft hafa úrslitin ekki fallið með þeim. Það var því gríðarleg spenna meðal áhorfenda undir lok leiksins þegar FH-ingar reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn meðan Eyjamenn gáfu ekkert eftir og börðust inni í og við sinn eigin vítateig.

„Þetta var ekki okkur líkt í sumar, þessi leikur. Þetta minnti meira á síðasta ár þar sem við fórum ekkert mikið upp völlinn. Samt fannst mér þetta aldrei í neinni rosalegri hættu, þótt þeir haf náttúrulega fengið 2-3 sénsa til að jafna. En það var gott að klára þetta.“

Eftir leikinn sitja Eyjamenn í 9. sæti, fjórum stigum frá fallsvæðinu þar sem einmitt FH situr. Eyjamenn mæta efsta liði neðri hlutans á heimavelli um helgina og Sigurður Arnar horfir til mikilvægra stiga þar.

„Þetta eru bara svo mikilvægir leikir sem eru framundan því við erum alltaf að keppa við þessi lið sem eru í kringum okkur. Næsti leikur er gríðarlega mikilvægur. Sigur þar og þá eru allavega 6 stig frá fallsætinu því Leiknir og FH spila um helgina.

Þannig það er gríðarlega mikilvægt að taka næsta leik og fá smá andrými,“ sagði Sigurður Arnar að lokum.

mbl.is