Stúlkurnar biðu lægri hlut gegn Sviss

Emelía Óskarsdóttir skoraði gegn Sviss í dag.
Emelía Óskarsdóttir skoraði gegn Sviss í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stúlknalandslið Íslands í knattspyrnu, 17 ára og yngri, beið lægri hlut fyrir Sviss, 3:1, í A-deild undankeppni Evrópumótsins í þessum aldursflokki en leik liðanna í Santarcangelo di Romagna á Ítalíu var að ljúka.

Sviss komst yfir strax á 7. mínútu en Emelía Óskarsdóttir, leikmaður Kristianstad í Svíþjóð, jafnaði metin úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Svissneska liðið skoraði tvívegis á fyrstu 18 mínútum síðari hálfleiks. Staðan eftir það var þá 3:1, og þar við sat.

Sviss vann Frakkland, 2:1, í fyrstu umferðinni og stendur því vel að vígi á toppi riðilsins. Ísland  gerði þá jafntefli við Ítalíu, 3:3, en Ítalir og Frakkar mætast á eftir. 

Ísland leikur síðan við Frakkland í lokaumferð riðilsins á mánudaginn. Þetta er fyrri hluti undankeppninnar en sá síðari fer fram seinna í vetur og þrjú efstu liðin verða þá áfram í A-deildinni, þar sem 28 bestu þjóðir Evrópu spila, en neðsta lið riðilsins færist niður í B-deildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert