Guðlaugur Victor snýr aftur í landsliðið

Guðlaugur Victor Pálsson er í íslenska landsliðshópnum.
Guðlaugur Victor Pálsson er í íslenska landsliðshópnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Victor Pálsson er í leikmannahópi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir Eistlandi og Svíþjóð í vináttulandsleikjum á Algarve í Portúgal í janúar.

Fyrri leikurinn fer fram 8. janúar gegn Eistlandi og sá síðari gegn Svíþjóð hinn 12. janúar en Guðlaugur Victor var ekki með liðinu í síðasta verkefni, gegn Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu í nóvember, vegna meiðsla.

Arnór Ingvi Traustason snýr einnig aftur í liðið eftir nokkurt hlé en þeir Nökkvi Þeyr Þórisson og Aron Bjarnason eru nýliðar í hópnum. Aðeins sex leikmenn í hópnum eiga  fleiri en tíu A-landsleiki að baki.

Stærstur hluti leikmannahópsins leikur með liðum í Bestu deildinni en ekki er um hefðbundinn FIFA-landsleikjaglugga að ræða og því gat Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, ekki valið alla þá leikmenn sem hann hafði hug á að velja.

„Janúarverkefni hafa fest sig vel í sessi sem hluti af dagatali A-landsliðs karla og hafa nýst vel í gegnum tíðina,“ sagði Arnar Þór á heimasíðu KSÍ.

„Þetta er auðvitað ekki FIFA-gluggi þannig að félögum ber ekki skylda til að sleppa leikmönnum í verkefnið. Það er lítið við því að gera og við berum bara virðingu fyrir því.

Hópurinn sem við erum með núna er góð blanda leikmanna úr ýmsum áttum og við erum mjög spenntir fyrir þessu verkefni. Við tilkynnum 22 leikmenn núna, það er líklegt að sá 23. bætist við, en það skýrist síðar,“ bætti Arnar við.

Landsliðshópur Íslands:

Markverðir

 • Frederik Schram, Val – 6 leikir
 • Hákon Rafn Valdimarsson, Elfsborg – 3 leikir
 • Patrik Sigurður Gunnarsson, Viking – 2 leikir

Aðrir leikmenn

 • Andri Lucas Guðjohnsen, Norrköping – 12 leikir, 2 mörk
 • Arnór Ingvi Traustason, Norrköping – 44 leikir, 5 mörk
 • Arnór Sigurðsson, Norrköpng – 25 leikir, 2 mörk
 • Aron Bjarnason, Sirius – 0 leikir, 0 mörk
 • Aron Sigurðarson, Horsens – 6 leikir, 2 mörk
 • Dagur Dan Þórhallsson, Breiðabliki – 2 leikir, 0 mörk
 • Damir Muminovic, Breiðabliki – 4 leikir, 0 mörk
 • Danijel Dejan Djuric, Víkingi R. – 1 leikur, 0 mörk
 • Davið Kristján Ólafsson, Kalmar – 11 leikir, 0 mörk
 • Guðlaugur Victor Pálsson, DC United – 31 leikur, 1 mark
 • Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki – 7 leikir, 0 mörk
 • Ísak Snær Þorvaldsson, Rosenborg – 2 leikir, 0 mörk
 • Júlíus Magnússon, Víkingi R. – 3 leikir, 0 mörk
 • Kristall Máni Ingason, Rosenborg – 2 leikir, 0 mörk
 • Nökkvi Þeyr Þórisson, Beerschot - 0 leikir, 0 mörk
 • Róbert Orri Þorkelsson, CF Montréal – 2 leikir, 0 mörk
 • Sveinn Aron Guðjohnsen, Elfsborg – 17 leikir, 1 mark
 • Valgeir Lunddal Friðriksson, Häcken – 4 leikir, 0 mörk
 • Viktor Örlygur Andrason, Víkingi R. – 3 leikir, 0 mörk
mbl.is

Bloggað um fréttina