„Heiður fyrir gamlan mann að fá að spila með þessum strákum“

Víkingar fagna marki hjá Matthíasi í kvöld.
Víkingar fagna marki hjá Matthíasi í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Matthías Vilhjálmsson hefur gengið í endurnýjun lífdaga eftir að hann skipti úr FH í Víking Reykjavík eftir síðasta tímabil.

Hinn 36 ára gamli Ísfirðingur var á skotskónum í dag og skoraði tvívegis þegar Víkingur vann KA 4:0 á Greifavellinum á Akureyri.

Matthías var gómaður í klefa Víkinga eftir leik en áður en viðtalið fór fram hlustaði blaðamaður á sigursöng liðsins.

Það fór vel á því að byrja á að spyrja. Hvað voruð þið að syngja?

„Það er bara sigursöngurinn; Þrír punktar – ú – a.“

Ég ætlaði líka að spyrja hvort þú sért góður í stærðfræði. Hvort það verði vandamál að margfalda hærri tölur með þremur þegar fleiri leikir bætast við.

Matthías gaf nú lítið út á það en sagðist þó góður í stærðfræðinni. „Nei. Við höfum allavega byrjað mjög vel, eiginlega framar vonum. Mér finnst við vera með einstakan hóp og það er heiður fyrir gamlan mann eins og mig að fá að spila með þessum strákum. Við erum að spila mjög góðan fótbolta og vorum góðir í dag, fannst mér. Upp á síðkastið þá höfum við verið að kreista fram sigra en þetta var aldrei spurning í dag. Það er ekki á hverjum degi sem lið koma hingað og ná svona úrslitum.“

Það kom mark hjá ykkur snemma og svo þurfti að bíða eftir því næsta. KA-liðið náði ekki að sýna sinn besta leik.

„Öll þau skipti sem ég hef mætt KA þá hafa það verið mjög erfiðir leikir og jafnir. Kannski hafði það sitt að segja að við náðum að skora snemma. Leikjaprógrammið hefur líka verið þétt og það tekur sinn toll í meiðslum og öðru. Þeir eiga pottþétt eftir að komast í gang.“

Nú ert þú á þínu fyrsta tímabili með Víkingum. Er ekki léttara yfir þessu núna eftir erfitt tímabil hjá FH í fyrra?

„Síðasta tímabil var vonbrigði fyrir alla sem koma að málum hjá FH. Nú horfi ég fram á veginn og nýt þess að vara með nýjum félögum. Það var heiður fyrir mig að Arnar þjálfari hafi viljað sækja aldraðan manninn og leyfa mér að taka þátt í þessu. Ég er búinn að læra fullt af nýjum hlutum og það er geggjað að geta gefið eitthvað á móti.“

Við verðum að minnast á mörkin þín tvö í dag.

„Það var kominn tími á mark. Ég er búinn að flakka aðeins á milli í stöðum á vellinum í sumar en markið átti að vera komið. Þetta býr í mér og er einhvers staðar þarna. Það var ljúft að komast á blað og vonandi koma fleiri mikilvæg mörk í næstu leikjum,“ sagði Matti Vill að lokum.

mbl.is