Vildi að varamenn okkar mættu spila með venslaliði

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sagðist vera ánægður með sigur sinna kvenna á Keflavík í sjöttu umferð Bestu deildar kvenna í dag. Leikið var á heimavelli Stjörnunnar og urðu lokatölur 3:0 fyrir heimastúlkur.

„Mér var kennt fyrir nokkuð mörgum árum að vera sáttur með sigra þó svo að það væri ýmislegt í leiknum sem maður hefði viljað sjá betur gert.“

Hvað var það sem liðið hefði getað gert betur?

„Við gátum alveg klárað fleiri sóknir betur, fengum marga möguleika á að gera betur í sóknarleik okkar. Ég vil líka hafa þetta öruggara til baka, vil ekki vera að hleypa á okkur einhverjum hálffærum þegar við erum 3:0 yfir og tíu mínútur eftir. Mér finnst að það eigi að vera betra.“

Erin McLeod, aðalmarkvörður Stjörnunnar, missti af sínum öðrum leik og stóð Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving vaktina vel í marki liðsins í dag.

„Erin er með áverka á liðþófa og verður það skoðað betur í næstu viku. Hún verður eitthvað frá út af þessu. Ég var ánægður með Auði, við vitum hvað við fáum frá henni. Við þurftum aðeins að brýna hana og hún er að komast í gang hjá okkur. Hún á að nota þetta tækifæri til að sýna hvað hún getur og þetta var fínt hjá henni í dag.“

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir skoraði frábært mark fyrir Stjörnuna í dag.
Aníta Ýr Þorvaldsdóttir skoraði frábært mark fyrir Stjörnuna í dag. Arnþór Birkisson

Sædís Rún Heiðarsdóttir var maður leiksins í dag, átti tvær stoðsendingar og var síógnandi á vinstri kantinum. Þá var hver einasta spyrna frá henni í föstum leikatriðum sem skapaði hættu. Kristján segir að Sædís sé komin á góðan stað í sínum þroska sem leikmaður.

„Hún er komin á topp styrkleika hjá leikmönnum í þessari deild, hún er alltaf að bæta sig. Spyrnurnar hjá henni eru frábærar og eru að nýtast okkur mjög vel. Nú er hún búin að klára stúdentinn og ég held að hún verði fljúgandi í framhaldi af því.“

Það hefur verið töluverð umræða um varalið og venslafélög í kvennafótbolta. Pétur Pétursson, þjálfari Vals, gagnrýndi á dögunum regluverk KSÍ og sagði að hann þyrfti að sækja leikmenn niður í 4. flokk félagsins því hann mætti ekki nota leikmenn sem skráðir séu í venslafélag Vals, KH. Ásmundur Haraldsson, þjálfari Breiðablik, tók undir þessa gagnrýni á dögunum. Kristján segir að margt megi gera betur en horfa þurfi á öll sjónarmið áður en ákvörðun verði tekin.

„2. flokks-mótinu var breytt í nokkurs konar U-lið en það er ekki að nýtast okkur. Við erum með venslalið sem heitir Álftanes en við getum ekki sótt leikmenn þangað fyrr en í júní þegar félagsskiptaglugginn opnast. Við verðum að skipuleggja okkur áður en glugginn lokar aftur, þannig að við sjáum hvaða leikmenn við sjáum spila með Álftanes í 2. deild eða Stjörnunni í Bestu deild,“ sagði Kristján.

„Ég held það þurfi líka að hlusta á sjónarmið félagana sem telja að þetta sé ekki gott. Með góðu skipulagi þá rúllar þetta og auðvitað vildi maður sjá að þær sem sitja á bekk í efstu deild mættu spila með venslafélögum, við myndum þá stjórna þeim leikjum líka og gætum þá einnig kallað á leikmenn upp í aðalliðið ef upp á vantar. 

Þó að þetta fyrirkomulag sé í gangi á Norðurlöndunum þá eru ekkert allir ánægðir með kerfið. Ég held að það séu ólíkar hliðar á þessu og finnst það um að gera að heyra í þeim félögum sem eru ekki hrifin af þessum hugmyndum. Eitt af því sem þau tala um er að við séum ekki tilbúin í að lána leikmenn frá okkur en það er misskilningur. Þá finnst mér mjög ólíklegt að við myndum sækja ungan leikmann til að setja í lið tvö hjá okkur, nema þá að það sé einhver ótrúlega spennandi og efnilegur leikmaður sem væri eftirsóttur og við gætum ekki þroskað hann í meistaraflokk,“ sagði Kristján Guðmundsson að lokum.

mbl.is