Búin að bíða eftir að þetta myndi detta hjá henni

Málfríður Anna með boltann í kvöld.
Málfríður Anna með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málfríður Anna Eiríksdóttir átti afar góðan leik fyrir Val gegn Þór/KA í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Leiknum lauk með 1:0-sigri Vals í spennandi leik á Hlíðarenda.

„Ég er ánægð með þessa frammistöðu. Við létum boltann ganga vel og spiluðum vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Mér fannst við alveg geta komið með markið þá. Svo kom markið snemma í seinni hálfleik. Eftir það fórum við aftar og fórum að halda aðeins.

Ég er ótrúlega ánægð að hafa náð í þrjú stig. Mér leið allan tímann vel og fannst við vera með góða stjórn á leiknum. Við erum byrjaðar að finna okkur betur og það hefur verið mikill stígandi í þessu hjá okkur, sem ég er ánægð með,“ sagði Málfríður við mbl.is.

Valur hefur nú unnið þrjá leiki í röð í deildinni, eftir að hafa fengið eitt stig úr tveimur leikjum þar á undan. Valsliðið er nokkuð breytt frá því í fyrra og því tekið tíma að fínstilla nýtt lið.

„Undirbúningstímabilið var skrítið og það eru miklar breytingar frá því í fyrra. Það er eðlilegt að það hafi tekið smá tíma að slípa liðið saman,“ sagði hún.

Þórdís Elva Ágústsdóttir skoraði sigurmarkið með stórglæsilegu skoti upp í samskeytin fjær. Málfríður var kát að sjá liðsfélaga sinn uppskera.

„Loksins dettur hjá Þórdísi. Hún er búin að vera rosalega góð í allt sumar, í hverjum einasta leik. Hún er búin að eiga fjölmörg skot í slá, stöng, rétt yfir og rétt framhjá. Ég var búin að bíða eftir að þetta myndi detta hjá henni. Hún er komin í gang,“ sagði Málfríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert