Nei ég get ekki sagt það

Agla María Albertsdóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Agla María Albertsdóttir með boltann í leiknum í kvöld. Eggert Johannesson

„Við höfðum átt að vinna leikinn,“ sagði landsliðskonan Agla María Albertsdóttir í samtali við mbl.is eftir leik jafnteflisleik Breiðabliks og Stjörnunnar, 1:1, í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. 

Agla María spilaði sinn 150. leik fyrir Kópavogsliðið í kvöld og segir það hafa verið „alveg geggjað.“

„Það er æðislegt að spila fyrir uppeldisfélagið. Frábær mæting í dag og það hefði verið frábært að vinna þetta en já, mjög skemmtilegt.“

Fyrstu 60. mínútur leiksins voru afar bragðdaufar og var fátt um fína drætti. Síðan komst Stjarnan yfir og á 68. mínútu klúðrar Agla María víti. Hún segir að liðið hafi þurft að skora og því settu þær meiri pressu á Stjörnukonur sem skilaði jöfnunarmarki. Hún er aftur á móti ekki sátt með einungis eitt stig.  

„Ég klúðra þarna víti en okkur tekst samt að koma til baka. Miðað við hvernig seinni hálfleikurinn spilaðist þá fannst mér við eiga að vinna leikinn, þannig nei ég get ekki sagt að ég sé sátt með úrslitin.

Við lendum undir og við verðum að skora þannig við setjum meiri pressu á þær. Upp úr því kemur þetta mark. Mér fannst fyrri hálfleikurinn í rauninni bara lélegur hjá báðum liðum. Þetta var bara spark fram og til baka og ekkert spil náðist. 

Mér fannst við samt eiga þennan leik síðustu þrjátíu mínúturnar og höfðum bara átt að vinna hann“. 

Agla María átti stóran þátt í jöfnunarmarki Blika þar sem hún var í baráttunni þar sem boltinn hrökk af höfði Mál­fríðar Ernu Sig­urðardótt­ur og í netið. 

„Ég svosem snerti ekki boltann í markinu en ég er í þessu. Ég reyndi bara að vera grimm og koma honum inn. Það var gott að boltinn fór inn og við jöfnuðum þetta, ég er aðallega fegin því.“

Breiðablik mætir ÍBV næst í Eyjum en Blikaliðið er þremur stigum á eftir meisturum Vals, sem eru efstir. 

„Það verkefni leggst vel í mig. Við höfum allt að vinna þar. Það er svona síðasti útileikurinn út á landi á tímabilinu, þannig ég er mjög spennt fyrir því. Við ætlum okkur að taka þrjú stig þaðan,“ sagði Agla María að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert