Ef þeir misstíga sig

Skagamenn fagna marki í kvöld.
Skagamenn fagna marki í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Ég er hrikalega ánægður með góðan sigur á erfiðum útivelli enda hefur Afturelding sýnt í sumar að það er gríðarlega erfitt að koma hingað að spila svo þetta var virkilega vel gert hjá strákunum, héldu leikplaninu allan leikinn og kláruðu þetta mjög vel,“  sagði Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA eftir 5:2 sigur á Aftureldingu í Mosfellsbænum í kvöld þegar leikið var í næst efstu deild karla í fótbolta.

Þjálfarinn var stoltur af sínum strákum fyrir að halda sig við leikskipulagið sitt og ætlar að vera viðbúinn ef efsta liðið Afturelding fer að misstíga sig.  „Við vorum varkárir framan af enda Afturelding spilað vel í sumar.  Svo komumst við yfir og fórum þannig inn í hálfleikinn með frábæra stöðu, vissum að við fengjum þá frábærar stöður í seinni hálfleik, sem við kláruðum mjög vel.“

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA. mbl.is/Guðmundur Bjarki

ÍA er í 2. sæti deildarinnar, vantar 8 stig til að ná Mosfellingum en á einn leik til góða og Jón Þór er viðbúinn.  „Við sýndum að það er hægt að vinna Aftureldingu, sem hefur verið á miklu skriði í sumar en ég vona að við höfum sýnt öðrum liðum í deildinni að það er hægt að vinna Mosfellinga.  Hvort sem þeir misstígi sig meira í sumar eða ekki, þá ætlum við að vera tilbúnir og fylgja eftir góðum leikjum okkar með góðu gengi undanfarið.  Við erum að bæta okkur og höldum áfram að gera það.“

Engar áhyggjur af bakslagi

Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar var tiltölulega sáttur við sína menn eftir tapið fyrir ÍA og telur sitt lið geta komist aftur í fullt skrið.

Mér fannst bæði lið fara varfærnislega inní leikinn og alveg sáttur við spilamennsku okkar í fyrri hálfleik þegar við létum boltann ganga og vantaði herslumuninn uppá að skora.  

Svo ná Skagamenn að skora og það breytti leiknum aðeins, við förum þá að sækja meira til að reyna jafna að sjálfsögðu  en erum þá fáliðir í vörninni og því fór sem fór.  Við áttum að vera betri þegar við töpum boltanum að vinna hann aftur. 

Mosfellingar höfðu fyrir kvöldið ekki tapað leik í deildinni, unnið 11 og gert tvö jafntefli. 

Ég er alls ekki hræddur við neitt bakslag, við erum með svo sterka karaktera og frábæra liðsheild að ég hef engar áhyggjur af því.  Nú er bara leikur við Gróttu á miðvikudaginn og við mætum þar eins og í alla aðra leiki.  Við höfum unnið fullt af leikjum fyrir leikinn í dag og ég sé enga ástæðu til að efast um að við getum komist á sigurbraut aftur á miðvikudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert