Margrét Lára: Ég er aðeins að fikta við þetta

„Margir tala um að þeir hafi verið komnir með upp í kok af fótboltanum þegar þeir hætta en mér hefur aldrei liðið þannig,“ sagði knattspyrnukonan fyrrverandi Margrét Lára Viðarsdóttir í Dagmálum.

Margrét Lára, sem er 37 ára gömul, lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2019 eftir afar farsælan feril en hún er af mörgum talin besta knattspyrnukona sem Ísland hefur átt.

Fótbolti er mín ástríða

Margrét Lára hefur starfað sem sérfræðingur í sjónvarpi frá því hún lagði skóna á hilluna og þá er hún einnig einn af eigendum Heil heilsumiðstöðvar þar sem hún starfar sem klínískur sálfræðingur en hún útilokar það ekki að þjálfa í framtíðinni.

„Fótbolti er mín ástríða og verður það alltaf,“ sagði Margrét Lára.

„Ég er að fjalla um fótbolta af því að mér finnst gaman að horfa á fótbolta og pæla í honum. Mig langar til þess að þjálfa í framtíðinni og ég er að laumast til þess að þjálfa 8. flokk karla. Ég er aðeins að fikta við þetta eins og sagt er.

Eins og staðan er núna samt þá get ég ekki gefið mig að þjálfuninni að fullu, þannig er það bara,“ sagði Margrét Lára meðal annars.

Viðtalið við Margréti Láru í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert