„Mættum sterkar inn í seinni hálfleik og drápum þetta“

Barbára Sól að fagna sigurmarkinu.
Barbára Sól að fagna sigurmarkinu. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta var geggjaður skalli sem endaði í netinu,“ sagði Barbára Sól Gísladóttir sem skoraði sigurmark Breiðabliks gegn Val í toppslag Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

„Þetta var frekar erfitt í fyrri hálfleik, það var mikill vindur eins og sást kannski og við vorum ekki alvega að spila okkar leik en við komum miklu sterkari inn í seinni hálfleik og bara drápum þetta,“ sagði Barbára Sól í viðtali við mbl.is eftir leikinn og hélt áfram.

„Það vantaði baráttu í fyrri hálfleik, við vorum ekki líkar sjálfum okkur og komum brjálaðar inn í seinni hálfleik,“ sagði Barbára en Breiðablik var 1:0 undir í fyrri hálfleik.

Breiðablik hélt toppsætinu og er nú með þriggja stiga forystu. Valur er ennþá í öðru sæti eins og staðan var fyrir leikinn en þá voru liðin með jafn mörg stig. Hvert stig getur skipt máli en sex stig skildu liðin af í fyrsta og öðru sæti í fyrra.

„Þetta eru mikilvæg stig. Þetta eru tvö öflug lið, jafnvel þau sterkustu á landinu eins og sést á töflunni. Það er geggjað að fá sigur í dag og halda sér á toppnum.“ 

Veðurspáin var ekki góð fyrir leikinn og til dæmis var leikur Stjörnunnar gegn Fylki færður inn í Miðgarð en Barbára lét það ekki hafa nein áhrif á sig.

„Ég var ekki mikið að pæla í því ég var bara að einbeita mér að því að mæta í leikinn. Við stjórnum ekki veðrinu og lögðum upp okkar leik, mættum og sýndum að við getum þetta,“ sagði Barbára.

Barbára skoraði sigurmark Breiðabliks í dag eftir hornspyrnu á 64. mínútu.

„Þetta var geggjað, ég er búin að bíða eftir fyrsta markinu í deild og loksins kom það,“ sagði Barbára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert