Víkingur jafnaði á síðustu stundu í Kaplakrika

Markaskorararnir Snædís María Jörundsdóttir og Breukelen Woodard fagna marki þeirrar …
Markaskorararnir Snædís María Jörundsdóttir og Breukelen Woodard fagna marki þeirrar fyrrnefndu í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

FH og Víkingur úr Reykjavík skildu jöfn, 2:2, þegar liðin áttust við í 6. umferð Bestu deildar kvenna á Kaplakrikavelli í dag. Víkingur jafnaði metin á síðustu stundu.

Víkingur er áfram í fimmta sæti, nú með átta stig, og FH er sæti neðar með sjö stig.

Fyrri hálfleikur var bráðfjörugur þar sem bæði lið sköpuðu sér fjölda góðra tækifæra.

Elísa Lana Sigurjónsdóttir í liði FH átti hörkuskot á áttundu mínútu sem Birta Guðlaugsdóttir í marki Víkings varði vel í þverslána og yfir.

Í næstu sókn fékk Snædís María Jörundsdóttir boltann frá Elísu Lönu í kjölfar þess að sú síðarnefnda slapp í gegn eftir laglega stungusendingu Breukelen Woodard.

Snædís María skaut hins vegar framhjá nærstönginni vinstra megin úr vítateignum í kjörstöðu.

Tveimur mínútum síðar, á 11. mínútu átti Bergdís Sveinsdóttir, miðjumaður Víkings, lúmskt skot hægra megin úr vítateignum, nokkurs konar vippu sem fór yfir Aldísi Guðlaugsdóttur í marki FH og í þverslána.

Um miðjan hálfleikinn slapp Woodard ein í gegn, lék á Birtu, var aðeins lengi að fóta sig og tók skotið en Kristín Erla Johnson í vörn Víkings gerði frábærlega í að komast fyrir það.

Tvö mörk á einni mínútu

Á 34. mínútu brutu Víkingar ísinn. Erna Guðrún Magnúsdóttir átti þá glæsilega sendingu upp hægri kantinn, beint í hlaupaleið Emmu Steinsen Jónsdóttur.

Emma gaf fyrir markið með jörðinni þar sem Hafdís Bára Höskuldsdóttir kom á ferðinni og skoraði með viðstöðulausu vinstri fótar skoti af nærstönginni sem fór niður í nærhornið.

Strax í næstu sókn jafnaði FH hins vegar metin. Thelma Karen Pálmadóttir átti þá góða fyrirgjöf af hægri kanti, fann Snædísi Maríu á fjærstönginni, hún náði skalla að marki sem Birta varði í netið.

Undir blálok fyrri hálfleiks kom Woodard svo FH-ingum í forystu. Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir átti þá laglega sendingu af vinstri kantinum þvert fyrir markið þar sem Bandaríkjakonan var mætt á fjærstöngina og skoraði af örstuttu færi.

Staðan í hálfleik því 2:1, FH í vil.

Síðari hálfleikur var umtalsvert rólegri og fátt um fína drætti.

Dramatískt jöfnunarmark

Freyja Stefánsdóttir átti hættulitla tilraun eftir tæplega klukkutíma leik, beint á Aldísi, sem missti boltann hins vegar úr fangi sér og í þverslána áður en Aldís greip svo boltann.

Á 70. mínútu felldi Aldís fyrrverandi liðsfélaga sinn Shainu Ashouri innan vítateigs en mat Andri Vigfússon atvikið sem svo að um samstuð hafi verið að ræða en hefði hann með réttu átt að dæma vítaspyrnu.

Á 90. mínútu fékk FH tækifæri til þess að gera út um leikinn. Varamaðurinn Margrét Brynja Kristinsdóttir átti þá góðan sprett upp hægri kantinn, lagði hann þvert fyrir á varamanninn Berglindi Freyju Hlynsdóttur sem þrumaði boltanum í þverslána af örstuttu færi.

Elísa Lana náði frákastinu og átti hörkuskot en beint á Birtu sem varði.

Þetta klúður átti eftir að koma í bakið á FH-ingum þar sem Víkingur jafnaði metin á annarri mínútu uppbótartíma.

Sigdís Eva Bárðardóttir átti þá fyrirgjöf af vinstri kantinum, boltinn skoppaði í teignum, varamaðurinn Hulda Ösp Ágústsdóttir smeygði sér fram fyrir Aldísi og mokaði boltanum einhvern veginn yfir línuna.

Hugsanlega braut Bergdís Sveinsdóttir á Örnu Eiríksdóttur áður en boltinn skoppaði en ekkert var dæmt og dramatískt jafntefli niðurstaðan.

FH 2:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Berglind Freyja Hlynsdóttir (FH) á skot í þverslá Tvöfalt dauðafæri! Berglind Freyja þrumar boltanum í þverslána af örstuttu færi eftir frábæran sprett Margrétar Brynju.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert