Verðum að klára leikinn

Gregg Ryder, þjálfari KR, fer hér yfir leikaðferðir síns liðs …
Gregg Ryder, þjálfari KR, fer hér yfir leikaðferðir síns liðs í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Gregg Ryder, þjálfari KR, segir að jafntefli sinna manna gegn Vestra í dag, hafi verið hrein og klár vonbrigði, en leikur liðanna að Meistaravöllum í dag fór 2:2, en KR var með tveggja marka forskot í hálfleik.

„Þegar þú ert með tveggja marka forystu í hálfleik, þá verðurðu að klára leikinn, það er svo einfalt,“ segir Ryder.

Aðspurður um hvers vegna KR hafi ekki náð að sigla stigunum þremur heim að þessu sinni, segir Ryder að útskýringin hljóti að vera í hugarfarinu. „Við töluðum sérstaklega um það í hálfleik að við gætum gert betur, og raunar að við þyrftum að gera betur, þó við værum 2:0 yfir,“ sagði Ryder. „Við ætluðum að láta eins og hún væri enn markalaus og halda áfram, en augljóslega gekk það ekki eftir.“

Vestramenn skoruðu fyrra mark sitt úr víti, sem var dæmt eftir að Guy Smit, markvörður KR, felldi leikmann Vestra í úthlaupi. Aðspurður um hvort að atvikið hafi áhrif á stöðu Smit segir Ryder að það séu fleiri þættir sem hafi komið til þess að skapa marktækifærið.

Hann segir að sínu mati hafi dómari leiksins gert stór mistök í aðdraganda atviksins sem leiddi til vítisins, en að hann vilji ekki kenna dómurum um niðurstöðu leiksins. Þá hafi síðara markið, sem kom eftir hornspyrnu, verið gjöf sinna manna.

Ekki stressaðir á heimavelli

KR hefur nú fengið eitt stig á heimavelli í síðustu þremur heimaleikjum sínum. Aðspurður hvort að sálræni þátturinn geri leikmenn KR stressaðri á heimavelli segir Ryder svo ekki vera.„Ef það væri hefðum við aldrei náð að koma okkur í þá stöðu að vera með 2:0 forystu.“

-En hvernig sérðu fyrir þér að koma KR aftur á sigurbraut eftir þennan leik?

„Óstöðugleikinn er augljóslega vandamál. Síðast sýndum við mjög góðan varnarleik úti gegn FH og komumst þá einnig 2:0 yfir og unnum leikinn. Við þurfum að vera þéttari fyrir í varnarleiknum, við erum að gefa of mörg auðveld mörk. Og þegar við erum með stjórn á leiknum eins og í dag, þá verðum við bara að klára leikinn.“

Benóný Breki Andrésson fagnar hér öðru marka sinna í dag.
Benóný Breki Andrésson fagnar hér öðru marka sinna í dag. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert