Ég trúi alltaf á að ég geti skorað

Aron Bjarnason horfir á eftir boltanum í mark Framara.
Aron Bjarnason horfir á eftir boltanum í mark Framara. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Aron Bjarnason skoraði annað mark Breiðabliks á mikilvægum tímapunkti í sigri Breiðabliks á Fram í Bestu deild karla í fótbolta í dag en Breiðablik fer með stigin þrjú úr Úlfarsárdalnum. Lokatölur 4:1 eftir opinn og skemmtilegan leik.

Liðin fengu fjölmörg færi í fyrri hálfleik en Breiðablik náði frumkvæðinu þegar leið á síðari hálfleikinn. Aron sagði í samtalið við mbl.is eftir leik að hann hafi ekki verið ánægður með fyrri hálfleikinn.

„Í fyrri hálfleik vantaði upp á flotið á boltanum hjá okkur og við vildum bæta úr því í síðari hálfleik. Mér fannst þetta aðeins of mikið fram og til baka í seinni hálfleiknum en sem betur fer skoruðum við 2:1 markið og gátum aðeins andað og kláruðum þetta síðan vel“.

Framarar hafa verið sterkir í upphafi móts og þrátt fyrir að 4:1 hafi ekki endilega gefið rétta mynd af leiknum er mikið styrkleikamerki að mati Arons að hafa unnið leikinn.

„Þeir eru erfiðir og hafa sýnt það allt tímabilið að það er erfitt að spila við þá, þeir eru þéttir og með góða fótboltamenn þannig að maður þarf að bera virðingu fyrir þeim og það er mjög sterkt að koma hingað og vinna“.

Aron skoraði sitt þriðja mark í deildinni í dag og á mikilvægum tímapunkti að þessu sinni. Hvernig lítur Aron á eigin frammistöðu í markaskorun það sem af er tímabili.

„Ég trúi alltaf á að ég geti skorað og ætla að halda því áfram. Mér fannst ég eiga nokkur mörk inni og ég er kominn með nokkur núna“. Sagði Aron Bjarnason að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert