Búin að bíða í þrettán ár

Sandra Sigurðardóttir á æfingu íslenska liðsins í morgun.
Sandra Sigurðardóttir á æfingu íslenska liðsins í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við horfðum saman á upphafsleik mótsins í gær og ég get alveg viðurkennt það að það kom smá spenna upp í manni við það,“ sagði Sandra Sigurðardóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á fyrstu æfingu íslenska liðsins í Crewe á Englandi í dag.

Íslenska liðið lenti í Manchester síðdegis í gær og æfði í fyrsta sinn í morgun en Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik sínum í D-riðli Evrópumóts kvenna í Manchester á sunnudaginn.

„Síðustu dagar hafa verið mjög góðir hjá liðinu. Við erum búnar að vera æfa við algjörar toppaðstæður í Þýskalandi, í frábæru veðri, sem skemmdi alls ekki fyrir. Við nýttum ferðina mjög vel á allan hátt og við náðum að stilla strengina vel saman fyrir það sem koma skal.

Það er alltaf gaman þegar að við komum saman og við munum klárlega taka það með okkur inn í lokamótið. Það er mikilvægt að halda í léttleikann, þrátt fyrir að við séum komnar á stórmót, en að sjálfsögðu er að færast meiri alvara í þetta enda stutt í fyrsta leik. Við ætlum samt að halda áfram að hafa gaman líka,“ sagði Sandra.

Þorsteinn Halldórsson stýrði sinni fyrsti æfingu á Englandi í dag.
Þorsteinn Halldórsson stýrði sinni fyrsti æfingu á Englandi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið breyst frá fyrsta stórmótinu

Sandra er á sínu fjórða stórmóti en þrátt fyrir það á hún ennþá eftir að spila landsleik fyrir Ísland í lokakeppni.

„Ég set mikla pressu á sjálfa mig en ég tel mig tilbúna í þetta verkefni og hlakka mikið til auðvitað. Ég er búin að bíða lengi. Ég er búin að upplifa þessi mót, umgjörðina og allt sem fylgir þessu og sú reynsla mun klárlega skila sér inn á völlinn líka.

Þetta hefur breyst mjög mikið frá því að ég fór á mitt fyrsta stórmót. Öll umfjöllun og umgjörð er orðin miklu meiri. Kannski fylgir því einhver meiri pressa, ég veit það ekki, en það er fyrst og fremst gaman og það er okkar að nýta það sem best.“

Svava Rós Guðmundsdóttir á fleygiferð í Crewe.
Svava Rós Guðmundsdóttir á fleygiferð í Crewe. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Taka einn leik fyrir í einu

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, gaf það út á dögunum að liðið ætlaði sér að vinna leik á EM en hann, ásamt leikmönnum liðsins, hefur ekki verið mjög yfirlýsingarglaður fyrir lokakeppina.

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um okkur sjálfar á þessum tímapunkti. Við erum allar íþróttamenn og auðvitað er markmiðið alltaf að ná sem lengst.

Til þess að komast upp úr riðlinum þurfum við að byrja á því að vinna leik eins og Steini sagði,“ bætti Sandra við í samtali við mbl.is.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 10. ÁGÚST

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 10. ÁGÚST

Útsláttarkeppnin