Slóvenar settu strik í reikning Spánverja

Slóveninn Miha Zarabec sækir að Spánverjanum Viran Morros de Argila …
Slóveninn Miha Zarabec sækir að Spánverjanum Viran Morros de Argila í leiknum í kvöld. AFP

Slóvenar settu stórt strik í reikning Spánverja á leið þeirra síðarnefndu í undanúrslit á Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla í kvöld. Slóvenar unnu viðureign þjóðanna, 31:26, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 13:12.

Við tapið dró verulega úr möguleikum Spánverja á sæti í undanúrslitum. Þeir verða að vinna Þjóðverja og treysta á að Makedóníumenn vinni ekki nema annan af þeim leikjum sem þeir eiga eftir. 

Fyrri hálfleikur liðanna í kvöld var afar jafn. Varnarleikur og markvarsla var í aðalhlutverki og aðeins skoruð 25 mörk. 

Slóvenar áttu enga möguleika á sæti í undanúrslitum fyrir leikinn en léku frábærlega í síðari hálfleik. Þeir náðu fljótlega fimm marka forskoti, 20:15. Vörn liðsins var framúrskarandi og Urh Kastelic markvörður fór á kostum.

Tólf mínútum fyrir leikslok var forskot Slóvena sjö mörk, 26:19. Spánverjar bitu frá sér á lokakaflanum og tókst að minnka muninn nokkrum sinnum í þrjú mörk en eftir að Ferran Sole brást bogalistinn í vítakasti þremur mínútum fyrir leikslok í stöðunni, 30:26, má segja að síðasta von spænska liðsins hafi brugðist. Matevz Skok var þá kominn í mark Slóvena og varði vítakast Sole. 

Danir eru efstir í milliriðli tvo með sex stig. Spánverjar og Þjóðverjar hafa fjögur stig hvorir, Makedónía og Slóvenía 3 stig og Tékkar tvö. Makedóníumenn og Tékkar mætast kl. 19.30. 

Gasper Marguc skoraði fimm mörk fyrir slóvenska liðið og var markahæstur. Borut Mackovsek og línumaðurinn Blaz Blagotinsek skoruðu fjögur mörk hvor. Ferran Sole skoraði sex mörk fyrir spænska liðið og Adrian Figueras var næstur með fjögur mörk. 

Kátir stuðningsmenn Slóvena.
Kátir stuðningsmenn Slóvena. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert