„Drakk bjór og át franskar“

Arpad Sterbik og félagar fagna sigrinum á EM í gærkvöld.
Arpad Sterbik og félagar fagna sigrinum á EM í gærkvöld. AFP

Hinn 38 ára gamli Arpad Sterbik reyndist heldur betur bjargvættur spænska landsliðsins í handknattleik sem í gærkvöld hampaði Evrópumeistaratitlinum í fyrsta skipti eftir sigur á Svíum í úrslitaleik í Zagreb.

Sterbik, sem var búinn að leggja landsskóna á hilluna, var kallaður inn í landsliðshóp Spánverja fyrir undanúrslitaleikinn gegn Frökkum eftir að Gonzalo Pérez de Vargas, aðalmarkvörður spænska landsliðsins og Barcelona, heltist úr lestinni vegna meiðsla.

Sterbik kom inn á í leiknum gegn Frökkum í fjórum vítaköstum Frakka og varði þrjú þeirra og undir lok fyrri hálfleiks gegn Svíum í gær kom hann inn á og lék allan síðari hálfleikinn og frábær markvarsla hans vó svo þungt að Spánverjum tókst að snúa leiknum sér í vil. Sterbik var útnefndur maður leiksins eftir úrslitaleikinn.

„Ég var bara í afslöppun heima. Ég drakk bjór og át franskar áður en ég fékk boð um að mæta til Króatíu,“ sagði Sterbik eftir sigur Spánverja í gærkvöld. Hann leikur með Evrópumeistaraliði Vardar frá Makedóníu en mun ganga í raðir ungverska meistaraliðsins Veszprém í sumar. 

mbl.is