Flo er ekki til sölu

Ken Bates, stjórnarformaður enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, fór um helgina fram á það við önnur félög í deildinni að láta af áhuga sínum á norska framherjanum Tore Andre Flo, hann sé einfaldlega ekki til sölu. Fjölmörg stórlið hafa að undanförnu borið víurnar í norska miðherjann hávaxna, ekki síst þar sem hann virðist ekki eiga sæti í byrjunarliði Chelsea, þótt hann komi reglulega inn á sem varamaður og sé einn markahæsti maður liðsins.
 Ummæli Bates koma í kjölfar áhuga Newcastle á Flo, en þar er nú einmitt við stjórnvölinn Hollendingurinn Ruud Gullit sem fékk Flo til Chelsea á sínum tíma en var síðar rekinn frá félaginu. Gullit hefur sagst vilja stilla þeim Alan Shearer og Flo saman í framlínu Newcastle liðsins, en Bates segir ekki koma til greina að selja leikmanninn, hann sé efnilegasti leikmaður liðsins og nauðsynlegt sé fyrir stórlið nútímans að ráða yfir stórum og öflugum leikmannahópum, því meiðsli og leikbönn muni setja strik í reikninginn þegar líða tekur á tímabilið.
 Bates hélt því fram í viðtali um helgina að Newcastle hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til að kaupa Flo og sagðist telja norska leikmanninn mun verðmætari en Alan Shearer. "Ég met Flo á 25 milljónir punda," sagði stjórnarformaðurinn, en það jafngildir þremur milljörðum íslenska króna. Til samanburðar má geta þess að á sínum tíma fór Alan Shearer frá Blackburn til Newcastle fyrir 10 milljónir punda.
 Bates hefur átt í stöðugum útistöðum við Gullit frá því að sá síðarnefndi var látinn taka pokann sinn á síðustu leiktíð. Hann hélt uppteknum hætti um helgina og sagði: "Ég skal segja ykkur hvers vegna Flo mun ekki fara til Newcastle. A. Ef Shearer er metinn á 15 milljónir punda, þá met ég Flo á 25 milljónir. B. Newcastle hefur ekki efni á svona leikmanni. C. Newcastle er síðasta félagið sem við myndum selja leikmanninn til."
 Vart þarf að taka það fram, að ef Flo yrði seldur á 25 milljónir punda yrði hann um leið langdýrasti leikmaðurinn í sögu ensku knattspyrnunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert