Liverpool dróst gegn Manchester United

Rio Ferdinand og Peter Crouch eigast við í leik Manchester …
Rio Ferdinand og Peter Crouch eigast við í leik Manchester United og Liverpool um fyrri helgi. Liðin mætast aftur í bikarnum. Reuters

Það verður boðið upp á sannkallaðan stórleik í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Dregið var rétt í þessu og aðalleikur umferðarinnar verður viðureign Liverpool og Manchester United sem fram fer á Anfield, heimavelli Liverpool.

Colchester og Brentford, 2. deildarliðin sem eru eftir í keppninni, fá bæði útileiki gegn úrvalsdeildarliðum. Colchester heimsækir Englandsmeistara Chelsea eða Everton og Hermann Hreiðarsson og félagar í Charlton taka á móti Brentford í Lundúnaslag.

Þá gæti orðið Íslendingaslagur 1. deildarliðanna Stoke og Reading. en Stoke fær heimaleik gegn sigurvegaranum úr viðureign Birmingham og Reading sem gerðu jafntefli, 1:1, á laugardaginn.

Þessi lið drógust saman:

Preston eða Crystal Palace - Coventry eða Middlesbrough
Newcastle - Southampton
Aston Villa - Manchester City
Everton eða Chelsea - Colchester
Charlton - Brentford
Liverpool - Manchester United
Bolton - West Ham
Stoke - Reading eða Birmingham

Leikirnir fara fram 18. og 19. febrúar.

mbl.is