Stórkostlegt sigurmark hjá Rooney

Nani fagnar marki sínu ásamt Rooney.
Nani fagnar marki sínu ásamt Rooney. Reuters

Stórkostlegt mark Wayne Rooney með bakfallsspyrnu 15 mínútum fyrir leikslok tryggði Manchester United 2:1 sigur gegn Manchester City í dag og með sigrinum náði Manchester United sjö stiga forskoti á toppi deildarinnar.

MARKIÐ hjá ROONEY, smellið HÉR

90. Leik lokið með 2:1 sigri Manchester United.

78. MARK!! Þvílíkt mark hjá Rooney. Hann skoraði með glæsilegri bakfallsspyrnu eftir fyrirgjöf frá Nani. Boltinn steinlá efst í horninu. Örugglega mark tímabilsins. Old Trafford hreinlega sprakk þegar boltinn þandi út netmöskvana.

Boltinn gengur nú marka á milli. Mikið fjör á Old Trafford þessar mínúturnar og spennan gríðarleg.

67. Ferguson er fljótur að bregðast við. Anderson er kallaður af velli og Berbatov kemur inná.

65. MARK!! City jafnar metin, 1:1. Skot Dzeko hafði viðkomu í David Silva og af honum fór boltinn í netið. Heppnisstimpill yfir markinu en það telur engu að síður.

60. City hefur gert tvær breytingar á liði sínu á fyrsta stundarfjórðungnum. Shaun-Wright Phillips og Edin Dzeko fyrir Kolarov og Milner. Nú ætlar Roberto Mancini að tjalda öllu til.

46. Seinni hálfleikur er hafinn. Engar breytingar á liðunum.

45. Andre Mariner flautar til leikhlés þar sem United er 1:0 yfir. Manchester City var sterkari aðilinn framan af en þegar líða tók á hálfleikinn hressust heimamenn og þeir náðu forystu á 41. mínútu með marki frá Nani, sem hefur verð besti maður vallarins.

41. MARK!! Nani kemur United í 1:0. Eftir skyndisókn átti Giggs sendingu innfyrir vörn City á Nani og Portúgalanum urðu ekki á nein mistök. Hann skoraði af öryggi.

33. Darren Fletcher átti ágætan skalla á mark City en boltinn beint í fangið á Joe Hart. Fletcher skoraði tvívegis í 4:3 sigri United á City á síðustu leiktíð.

30. Staðan er enn 0:0. Það ber lítið á milli liðanna og baráttan er allsráðandi. City hefur fengið besta færi leiksins þegar Silva laumaði boltanum rétt framhjá stönginni í byrjun leiks. United hefur ekki náð að skapa sér nein færi en það er helst Nani sem hefur gert usla í vörn gestanna.

15. City hefur verið öllu sterkari aðilinn á Old Trafford. Gestirnir eru ekki í skotgröfunum heldur sækja þeir á mörgum mönnum og hafa ráðið ferðinni það sem af er.

4. David Silva fékk sannkallað dauðafæri en skot Spánverjans eftir frábæra sókn smaug stöngina. Þarna sluppu heimamenn með skrekkinn.

Man Utd: Van der Sar, O'Shea, Smalling, Vidic, Evra, Nani, Anderson, Fletcher, Scholes, Giggs, Rooney.
Varamenn: Lindegaard, Berbatov, Owen, Hernandez, Rafael, Carrick.

Man City: Hart, Richards, Kompany, Lescott, Zabaletta, Milner, Toure, Barry, Kolarov, Silva, Tévez.
Varamenn: Given, Wright-Phillips, Dzeko, Boateng, Vieira, Jo, Toure.

Dómari: Andre Marinier.

mbl.is

Bloggað um fréttina