Manchester United nálgast nýtt met

Leikmenn Manchester United á góðri stund.
Leikmenn Manchester United á góðri stund.

Þrátt fyrir að Manchester United hafi átt erfitt uppdráttar í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, er liðið nú að nálgast nýtt met í deildinni.

United er sem stendur í sjötta sæti og í harðri baráttu um að vinna sér þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta tímabili. Liðið er fimm stigum frá Arsenal sem er í þriðja sætinu, en Louis van Gaal hefur verið mikið gagnrýndur fyrir störf sín hjá félaginu.

Þrátt fyrir erfitt tímabil er United hins vegar stigahæsta liðið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar síðan hún var fyrst leikin í núverandi mynd tímabilið 1992/1993. Liðið er raunar langefst með 1.933 stig, en Arsenal kemur næst á eftir með 1.728 stig.

Metið sem um ræðir er hins vegar hvað markahlutfallið varðar. Á þessu tímabili hefur liðið skorað 37 mörk og fengið á sig 27, sem gerir +10 í hlutfall. Allt í allt er liðið nú með +980 í markahlutfall síðan úrvalsdeildin var stofnuð, og er því að nálgast þúsund marka múrinn hvað jákvætt hlutfall varðar. Ekkert lið hefur náð þeim áfanga.

Nánar má sjá á meðfylgjandi mynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert