Sá fjórði staðfestir kynferðislega misnotkun

Barry Bennell hefur þegar hlotið níu ára fangelsisdóm.
Barry Bennell hefur þegar hlotið níu ára fangelsisdóm.

Fjórði enski knattspyrnumaðurinn hefur stigið fram og skýrt frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu þjálfara þegar hann var á barnsaldri.

Þetta er David White, sem lék um 340 leiki fyrir Manchester City og auk þess með Leeds og Sheffield United, ásamt því að spila einn landsleik fyrir Englands hönd. 

Hann skýrir frá misnotkuninni í bók sem er að koma út og segir að ellefu ára gamall hafi hann orðið fyrir misnotkun af hálfu þjálfara sem hann hafi dýrkað. Það er Barry Bennell, sem þjálfaði lengi hjá Crewe, en var dæmdur í níu ára fangelsi árið 1998 fyrir kynferðisbrot gegn sex drengjum.

Paul Stewart, fyrrverandi leikmaður hjá m.a. Liverpool, Tottenham og Manchester City, og þeir Alan Woodward og Steve Walters, fyrrverandi leikmenn Crewe, hafa allir komið fram á undanförnum dögum og skýrt frá misnotkuninni sem þeir urðu fyrir. Stewart hefur ekki nefnt brotamanninn í sínu tilviki en þar var um að ræða fjögurra ára tímabil þegar hann var 11 til 15 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert