Erum sterkari eftir áfallið gegn Íslandi

Kolbeinn Sigþórsson fagnar sigurmarkinu gegn Englendingum á EM.
Kolbeinn Sigþórsson fagnar sigurmarkinu gegn Englendingum á EM. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Enski landsliðsmaðurinn Dele Alli, leikmaður Tottenham, segir að ósigurinn gegn Íslendingum í 16-liða úrslitunum á Evrópumótinu í Frakklandi í fyrra muni örva liðið á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar.

Alli var í byrjunarliðinu gegn Íslendingum í Nice þar sem Íslendingar unnu frækinn sigur og sendu Englendinga út úr keppninni. Hann segir að enska landsliðið sé sterkara eftir áfallið gegn Íslendingum.

„Evrópumótið var ein besta og versta reynsla á mínum ferli á sama tíma. Það voru gríðarleg vonbrigði hvernig Evrópumótið endaði fyrir okkur.  Þetta var leiðinlegt, ekki bara fyrir mig heldur alla leikmennina.

Okkur leið þannig að við hefðum ekki bara dregið þjóðina niður heldur okkur sjálfa en ég held að liðið og einstaklingarnir séum sterkari eftir þetta,“ segir Alli en Englendingar mæta Hollendingum í vináttuleik á morgun.

Eftir tapið á móti Íslendingum hafa Englendingar tvívegis skipt um landsliðsþjálfara. Roy Hodgson sagði af sér eftir tapið gegn Íslendingum. Sam Allardyce tók við liðinu en hrökklaðist í burtu eftir skandal. Gareth Southgate var ráðinn í hans stað og unnu Englendingar sinn riðil í undankeppni HM undir hans stjórn á sannfærandi hátt.

mbl.is